13.04.1940
Neðri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Sigurður Kristjánsson:

Ég get náttúrlega endurtekið þau rök, sem ég færði fram fyrir því, að persónufrádrátturinn ætti að hækka. Það er öllum dm. kunnugt og öllum landslýð, að síðan skattalögin voru samþ. hefir framfærsla aukizt stórkostlega, og um miklu meira en þá upphæð, sem ég fer fram á, að persónufrádráttur hækki. Það leiðir af sjálfu sér, að þegar lögin um tekju- og eignarskatt voru samin, var persónufrádrátturinn miðaður við þann framfærslukostnað, sem þá var, og það er alveg víst, að persónufrádrátturinn hefði verið miklu hærri, ef framfærslukostnaðurinn hefði verið eitthvað svipaður því, sem nú er. Ég vildi nú leyfa mér að mælast til þess, að þeir, sem mæla þessu gegn, reyndu að gera sér einhverja grein fyrir því, að persónufrádráttur eigi að hækka við það, að tekju- og eignarskattur hækkar og framfærslukostnaður hefir hækkað, bæði fyrir aðgerðir Alþingis og aðrar ástæður, siðan þessi ákvæði voru sett, og það er algerlega ósæmilegt fyrir nefnd, sem hefir annan eins trúnað eins og fjhn., að gera sér þetta ekki ljóst, og færa fram afsakanir fyrir því, að hún er á móti þessu, en skuli þess í stað gera sig hlægilega með því að bera fram slíka fjarstæðu sem hún gerir hér. Formaður yfirskattanefndar skýrði mér frá því, að hann hefði verið fenginn til þess að reikna þetta út. Ég hélt, að nóg væri til þess að hlæja að þessum manni fyrir, þó hann láti ekki ginna sig til þess að koma með aðra eins endileysu og þetta er. Ég hefi sjálfur verið formaður skattanefndar í bæ úti í landi og veit, hvílík fjarstæða það er, að þessi breyting mundi muna svona miklu. Þetta er ekki byggt á neinu viti, og sú greinargerð, sem þessi þm. gerði mér fyrir því, hvaða aðferð hefði verið notuð, kemur ekki nærri neinum rökum.

Það er vitað, að í frv stj. er gert ráð fyrir. að allir skattar nemi 1700 þús. kr. Nú er það vitað, að langmestur hluti tekjuskattsins er greiddur af ýmiskonar atvinnurekstri, þar sem persónufrádráttur kemur ekki til greina. Persónufrádráttur er langmestur á smærri skattgreiðendum. Nú er það svo, að minnsta upphæð, sem tekjuskattur er reiknaður af, er 100 kr., og er þá tekjuskatturinn innan við eina krónu. Frádrátturinn kemur þess vegna að mestu leyti á ákaflega litlar tekjur, — tekjur, sem aðeins eru yfir það mark, að maðurinn lendir í tekjuskattinum. petta hefir þessi frv. þm. ekki athugað. Hann tekur svo gervitlausan grundvöll, að það er neðan við það, að hægt sé að hlæja að því. Og bara á upphæðinni, 400 þús. kr., sér hver maður undir eins, að þetta er gersamlega fjarri öllu viti. En þó þetta væri eitthvað mærri réttu lagi, er það vitanlegt, að það verður að hrekja undirstöðuna undir þessari kröfu um að hækka persónufrádráttinn, til þess að það verði frambærilegt fyrir þingið að neita því. Ég hygg, að hv. þm. muni sjá af tölunum sjálfum, hve mikil blekking þetta er, og undarlegt, að skynsemi gæddir menn skuli ekki sjá, hvílík fjarstæða þetta er. En það er dálítið einkennilegt fyrir mig sem flm. að mæta annari eins staðhæfingu, og vil ég biðja hv. þm. að athuga málið frá þeirri hlið, sem ég hefi flutt það, að persónufrádragið eigi að hækka, þegar framfærslukostnaðurinn hækkar, en ég ætlast ekki til, að menn fari að leggja sig niður við að athuga þessa fjarstæðu, sem formaður yfirskattanefndar kemur fram með.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta, en vil vísa til þess, sem ég sagði við 2. umr. málsins.