15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Einar Olgeirsson:

Mig langar til þess í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Skagf. talaði um í ræðu sinni, að menn yrðu að taka tillit til skoðana annara, að minna á það, að það væri regla, sem hv. þm. ættu að láta gilda meira en hingað til. Mér finnst hv. þm. þjóðstj. farast illa að vera að prédika slíkt á sama tíma sem fjölda manna er gert ómögulegt að lifa í landinu.

Viðvíkjandi þeirri brtt., sem hér er komin fram, þá álít ég það mjög nauðsynlegt að hækka persónufrádráttinn. Hvað hátekjumennina snertir er enginn vafi á því, að það er ekki rétt leið, sem farin er gagnvart þeim, meðan tollarnir eru eins gífurlegir eins og þeir eru, ekki sízt þegar reiknaður er tollur af vörunni eins og hún kostar innkomin. Lágtekjumennirnir, sem mest verða fyrir barðinu á dýrtíðinni, þurfa nú ca. 800 kr. meira en á sama tíma í fyrra til að kaupa fyrir mat, föt og eldsneyti, sé miðað við manna fjölskyldu. En launin hafa á sama tímabili hækkað um 15%, sem þó kemur mjög illa til framkvæmda, vegna þess að uppbótin er öll reiknuð eftir á, þannig að dýrtíðaruppbótin er aldrei fullreiknuð. Ég vil benda á það, ef ekki hefði nú verið búið að gera útgerðina skattfrjálsa, þá hefði hún nú getað borið nokkuð mikil útsvör í ár, og hefði það getað orðið til þess að létta byrðar þeirra, sem lægst hafa launin. Mér finnst engin ástæða til þess að vera að lækka skattana á mönnum, sem hafa eins gífurlegar tekjur og útgerðarmenn. Hinsvegar finnst mér, að hægt væri að hækka persónufrádráttinn hjá þeim mönnum, sem hafa undir 6500 kr. árslaun, því að það eru menn, sem sízt mega við því, að tekjuskatturinn sé hækkanir. Þessu vildi ég aðeins skjóta fram til athugunar. hvort ekki mætti orða. brtt, eitthvað á þessa leið.