30.03.1940
Efri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

84. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Í sambandi við till. á þskj. 275 langar mig til að biðja um nokkrar upplýsingar. Ég skal taka það fram, að ég er með till. eins og hún liggur fyrir, hvort sem ég fæ svar við fyrirspurnum mínum eða ekki. Í fyrsta lagi langar mig til að vita, hve mikið fé þar er um að ræða. Ég geri ráð fyrir, að það sé hv. flm. ljóst, þótt það sé ekki Ljóst fyrir mér vegna ókunnugleika míns á þessu máli.

Í öðru lagi langar mig til að vita, hvernig skilja beri það ákvæði, þar sem fjmrh. er heimilað að greiða í þjóðleikhússjóð, ef fjárhagur ríkissjóðs leyfir. En nú hefir við 2. umr. fjárl. komið fram till. um, að skera megi mörg gjöld ríkisins niður um 35%, og nú í dag var útbýtt hér á Alþingi frv. á þskj. 269, í 7 tölul., þar sem lagt er til, að skera megi niður mesta fjölda af lögboðnum gjöldum um 35%. Að vísu veit maður ekki, hvort þessi heimild verður notuð, ef hún verður samþ., sem ég vona, að ekki verði. En ef hún yrði notuð og að því kæmi, að fjárhagur ríkisins yrði góður, — er þá meiningin, að þetta fé eigi að ganga fyrir, og að ríkið eigi að greiða það, þó að niðurskurður verði notaður? Eða er hitt meiningin, að fjárhagur ríkisins verði þá fyrst góður, ef enginn niðurskurður yrði gerður? Mér virðist þurfa skýlaus fyrirmæli um, hvað sé átt við með orðunum „ef fjárhagur ríkissjóðs leyfir“. Mér skilst, að samkv. þeim till., er nú liggja fyrir um heimild til niðurskurðar á fjárl., megi deila um það, hvað átt sé við með þessum orðum. Annars vil ég segja það, að ég tel till. á þskj. 215 sjálfsagða, og engan vafa á, að þessi greiðsla eigi að ganga fyrir ýmsum öðrum framlögum ríkissjóðs.