23.04.1940
Neðri deild: 49. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

*Fjmrh. (Jakob Möller) Ég stend aðeins upp til þess að leggja á móti brtt. hv. þm. V.-Ísf. Ég vil taka það fram um leið, að það er í raun og veru misskilningur, að þetta þurfi að kenna niður á framkvæmdum að því er snertir byggingu verkamannabústaða, af þeirri einföldu ástæðu, að það dettur engum manni í hug, að til þess komi, að verkamannabústaðir verði byggðir á árinu 1941 af ástæðum, sem öllum eru kunnar. Það er því aðeins um það að ræða að safna fé í sjóði. Þó það geti vitanlega verið hentugt að eiga slíka sjóði, og þá heldur stærri en minni, þegar ástandið fer að batna og möguleikar eru fyrir því að nota féð til framkvæmda, þá eru möguleikar byggingarsjóðanna engan veginn einungis bundnir við slíka sjóðssöfnun. því gert var ráð fyrir í upphafi, að allar aðalframkvæmdir væru byggðar á lántökum, en ekki fjársöfnun, sem ætti sér stað með tillögum fra ríkissjóði og sveitarfélögum. Það var tilætlunin, að þau stæðu undir greiðslum á vaxtamismun, sem væri á lánum, sem byggingarsjóðirnir taka, og þeim lánum, sem þeir lána til einstakra félaga. Hinsvegar eiga sjóðirnir nægilega miklar eignir til þess að standast þann kostnað í náinni framtíð.

Það væri því mjög ósanngjarnt með tilliti til þeirra annara ákvæða, sem frv-. felur í sér, ef þetta væri fellt undan, því það eru líkur til, að það sé sízt ástæða til þess af öll því, sem í frv. er.