14.03.1940
Sameinað þing: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1941

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Áður en ég sný mér að brtt. við fjárlfrv., sem er á þskj. nr. 135, langar mig til að henda á eina þrjá liði viðvíkjandi brtt. hv. fjvn.

Þegar fjárl., sem nú gilda, voru til umr. nú fyrir áramótin, benti ég á það, að mér væri það ekki sársaukalaust að sjá, að einn vegur, sem alla tíð hefir verið inni á vegal. og fengið upp undir 2 þús. kr. á ári, væri alveg strikaður út. En ég benti þá á, að ég mundi sætta mig við það samt sem áður, að hann væri látinn eiga sig að sinni, en í þeirri ákveðnu von, að hann kæmi aftur inn í fjárl. eins og verið hafði. Fjvn. tekur þó ekki þennan veg upp. Ég hefi nú ekki komið með brtt. um að taka hann upp. En ég vænti þess fastlega, að hv. fjvn. taki hann upp og leggi til, að til hans verði veittar 2–4 þús. kr. Þetta er vopnafjarðarvegur, en hann tengir einn af stærstu hreppum landsins við vegakerfið. Það er kominn vegur á stuttum köflum, en sundurlaust og ekki nærri um alla sveitina. Og í ár verður ekkert unnið þar. Ég vonast til þess, að fjvn. sjái sér fært að taka upp, þó ekki sé nema 2 þús. kr. fjárveitingu til þessa vegar. og ef henni finnst ekki mögulegt að láta fjárl. hækka um þetta, þá álít ég, að það mætti vel lækka framlagið til Austfjarðavegarins um 2 þús. er, hafa það 20 þús. í stað 22 þús. kr. Heldur en að sleppa alveg þessum vegi, sem ég nefndi, álít ég þetta heppilegra.

Þegar til þess kemur að greiða atkv. um jarðabótastyrkinn, þá mun ég geta greitt atkv. með 350 þús. kr. tillaginu, sem fjvn. ætlar til styrkja eftir jarðræktarl., en með þeirri ákveðna forsendu, að það verði ekki bundið við þessa upphæð sem hámark, því að um upphæðina, sem til framkvæmdar þeirra l. þarf, er ekki hægt að vita með neinni nákvæmni fyrr en vitað er, hvað hefir verið unnið. Jarðræktarl. eru nokkurskonar harmonikulög, sem ekki verður fyrirfram vitað, hve mikið framlag krefja úr ríkissjóði, það getur orðið meira eða minna, eftir því hve mikið er framkvæmt. Ég hefi ekki trú á að það verði ekki nema 350 þús. kr., en sætti mig við upphæðina sem áætlaða og treysti því, að hún verði ekki ákveðin sem hámark í bráðabirgðabreyting nokkurra laga.

Þá vil ég benda á, að það hafa núna síðustu dagana komið til mín nokkrir menn, sem eru að hugsa um að flytja sig með sínar fjölskyldur út í sveit og setjast þar að. Allflestir af þessum mönnum eru þannig settir, að þeir hafa ekki tæki til þess, né heldur fjárhagsástæður til að kaupa þann lágmarksbústofn, sem þeir þurfa til þess að geta lifað af í sveit. Það eru nú ætlaðar hér 500 þús. kr. til atvinnuaukningar. Ég vil nú mjög beina því til hv. fjvn., hvort ekki væri möguleiki til þess að geta greitt fyrir þessum mönnum, sem vantar mjög mikið til þess að geta flutt í sveit, en vilja það. Einn þeirra er t.d. með 13 hálfuppkomin börn, svo að þeim ætti að vera mögulegt að bjarga sér í sveit. Og án efa verða nógu margir atvinnulitlir menn samt í kaupstöðunum, þó að það tækist að koma þessum mönnum til hjálpar með að flytja í sveit.

Það hefir nú verið svo hin síðari ár, að hæstv. Alþingi hefir ekki séð sér fært að veita það mikið fé til brúargerða, að hægt hafi verið að brúa hin stærri fallvötn í landinu. Eftir því sem vegamálastjóri upplýsir, er eftir að brúa ár hér á landi, sem kostar mikið fé að brúa. Það mun sennilega láta nærri, að það mundi kosta 31/2 millj. kr. að brúa þær ár, sem nú er eftir að brúa í landinu og eru svo dýrar, að hver kostar yfir 30 þús. Síðustu stórárnar, sem brúaðar hafa verið, í Rangárvallasýslu, vesturskaftafellssýslu og Skjálfandafljót og víðar, hafa verið brúaðar fyrir lánsfé. Þannig hefir kostnaðinum af því verið dreift á fleiri ár, eða á framtíðina. Þetta er að vísu miður heppilegt og óskandi, að frá þessu væri breytt. Í tilefni af því höfum við nokkrir þm. í Ed. lagt fram frv. um eins eyris gjald af hverjum lítra af benzíni, sem lagt væri í sérstakan sjóð til þess að brúa þær ár, sem óbrúaðar eru og hver kostar yfir 30 þús. Þetta frv. var fellt í dag í Ed. með jöfnum atkv. Þeir hv. þm., sem stóðu að því að fella frv., voru svo fullir af velvilja til brúargerða, að það flóði út úr. Þeir töldu sig allri með því, að ríkið veitti fé til brúagerða í ríkum mæli, því að það væri geysiþarft verk. Hinsvegar voru þeir allir á móti því alveg ákveðið að leggja þennan skatt á benzínið til þess. Það vildu þeir ekki. Nú vil ég veita þessum hv. þm. tækifæri til þess að láta eitthvað af þeirra yfirfljótanlega velvilja í garð brúargerða í landinu flóa út við atkvgr. þessa fjárlagafrv. og yfir þessa brtt., sem við tveir þm. hv. 2. þm. S-M. og ég, höfum borið fram um brúargerðir á þskj. 135. Engum blandast hugur um það, að það liggur á þessari brú. Þessi á, Jökulsá á Fjöllum, skilur Norðurland frá Austurlandi. Til þess að komast þarna leiðar sinnar þarf nú að fara 82 km. krók fram yfir það, sem verður, þegar brúin er komin.

Síðasta sumar var bifreiðaeftirliti ríkisins falið að rannsaka, hvað kostaði benzín, gúmmí, varahlutir o.þ.h. til þess að aka 5 manna bíl 1 km. Það komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi kosta 25 aura. En í vetur hefir þessi rannsókn verið endurtekin, og niðurstaðan varð þá, að það kostaði 33 aura. Þessa vegalengd, sem fara þarf nú sem krók til þess að komast á milli Norður- og Austurlands, keyrðu 500 bílar, ekki 5 manna, heldur stærri, sem eyddu meiru í benzíni, gúmmí og varahlutum á hvern km heldur en bílarnir, sem bifreiðaeftirlitið hafði haft til hliðsjónar við sinar athuganir. Ef við samt sem áður tökum tölurnar eins og þær liggja fyrir og gerum enga áætlun um, hvað stórir bílar eyða meira benzíni heldur en litlu bílarnir, þá hefir á síðasta sumri, með því verði, sem nú er á þessum hlutum, eyðzt sem svarar fullum 13 þús. kr. í erlendum gjaldeyri við akstur þessara bíla bara þennan krók, sem ég gat um.

Nú eru tvö brúarstæði á þessari á, annað undan Grímsstöðum á Fjöllum, þar sem mun kosta um 1/4 til 1/3 úr millj. að brúa ána, en hitt undan Möðrudal. Þar er hægt að brúa hana í tvennu lagi. Hún rennur þar á milli klappa; þar er hugsað að hafa járnbrú, sem mundi kosta 50 til 60 þús. kr. með núverandi verðlagi. Hinsvegar væru þá óbrúaðar kvíslar, sem, þegar áin væri mikil, geta verið ófærar, og þyrfti að sjálfsögðu að brúa þær seinna. Till., sem hér liggur fyrir á þskj. 135. gerir ráð fyrir, að nú verði greiddar 90 þús. kr. til þess að brúa þessa á, og talan sett með tilliti til þess, að þó að það þurfi að grípa til þess að skera af upphæðinni 35% eftir till. fjvn., þá verði nóg eftir til þess að brúa aðalána. við flm. brtt. gerum ekki ráð fyrir því, þó að hún verði samþ., að þá verði eytt meiru af því tillagi heldur en þarf til þess að áin verði brúuð á þessum eina stað, enda þótt afgangur kynni að verða af þessari 90 þús. kr. fjárveitingu, — ef ekki þarf að skera af fjári. yfirleitt. 35% af þessum 90000 ættu þá alitaf að sparast.

Nú vænti ég, að hv. þm. sjái, að þó að þarna verði að eyða 50–60 þús. kr. til að brúa þessa á, sem ekki þarf til erlendan gjaldeyri nema til að kaupa 14 tonn af járni, þá muni sá kostnaður í erlendum gjaldeyri fljótt vinnast upp með sparnaði á benzíni, gúmmíi og varahlutum ásamt sliti á bílunum, sem þarna keyra, með því að þurfa ekki að fara þennan 82 km krók, heldur geta farið yfir ána á þessari brú. Þar að auki sparast í dagleið öllum, sem á milli landshlutanna fara. Ég á bágt með að skilja, að þeir menn séu til hér á hæstv. Alþ., sem ekki vilja fallast á þessa sanngjörnu og hagfelldu till., heldur vilja þeir spara eyrinn og fleygja krónunni með því að byggja ekki þessa brú sem fyrst. Ég vona því, að þessi brtt. fái góðan byr hér í hæstv. Alþ. og verði samþ., — jafnvel af þeim hv. þm., sem ekki vildu vera með því að leggja 1 eyris skatt á hvern lítra af benzíni til þess að safna fé til brúargerða á stórám landsins. Ég vænti, að sá margyfirlýsti velvilji hv. þm. Ed. í því efni, að brúa stórárnar, sjáist nú við þessa atkvgr.