04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

34. mál, skipun læknishéraða

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Út af fyrirspurn hv. 2. þm. Rang. um það, hvort stj. muni bera fram einhverjar till. í sambandi við ráðstafanir út af því að tryggja það, að auðveldara yrði að fá lækna í sveitahéruðin yfirleitt, þá skal ég taka fram, að landlæknir hefir skrifað heilbrigðismálaráðuneytinu ýtarlega um þetta efni. Ég hefi athugað þetta, af því að það heyrir undir það ráðuneyti, sem ég starfa við, og hefi einnig minnzt á það við starfsbræður mína í stj., en ennþá hefir engin endanleg ákvörðun verið tekin. Hinsvegar hefir landlækni verið falið að semja frv. í sambandi við þær till., sem hann hefir lagt fram. Hefir hann nú lokið því, og er það nú til nánari athugunar, áður en það verður látið koma í ljós, hvort sem það verður flutt af stj. eða ekki.