14.03.1940
Sameinað þing: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1941

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Mér þykir rétt, áður en umr. lýkur og atkvgr. byrjar, að gera nokkra grein fyrir, en þó með örfáum orðum, að ég hefi mælt með, að fjárlagafrv. yrði afgr. eins og það hefir komið frá n.

við nm. höfum að sjálfsögðu óbundu atkv. um einstaka liði, sem n. leggur til, að verði samþ., en ég get sagt það fyrir mig, að ég hefi litið svo á, að það væri ekki svo mikið, sem ég væri mótfallinn samþykktum n., að ég sæi ástæðu til að gera sérstakan fyrirvara fyrir minni undirskrift, en mun að sjálfsögðu neyta réttar míns til að greiða ekki atkv. með þeim till. n., sem ég álít, að muni vera hættulegar eða óréttar.

Þegar þetta frv. kom til aðgerða n., leit ég satt að segja svo á, að þótt gerð væri virðingarverð tilraun til þess að viðurkenna þá alvörutíma, sem við lifum á, þá mundi þannig í pottinn búið fjárhagslega, að þurfa mundi ennþá meiri niðurskurð á fjári. Hitt er annað mál, hvort sá niðurskurður, sem gerður var á frv. frá því, sem var í fjárl., hefir komið niður í öllum atriðum á réttum stað. Ég vil þó fúslega viðurkenna það, að með því breytta verðlagi, sem orðið er í landinu, hefði það ekki verið neitt óeðlilegt, þó að fjárlögin hefðu hækkað talsvert mikið. En þar kemur aftur það til greina, að ástandið hefir mikið breytzt. Og það, sem olli því, að ég gat sætt mig við, að frv. væri afgr. með þeim heildarniðurstöðutölum, sem í því eru, byggist eingöngu á því, að menn frá fjvn. fóru á fund ríkisstjórnarinnar og áttu tal við 2 ráðh., hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. varð að samkomulagi á þessum fundi, að ef n. aðhylltist það, þá skyldi á móti þeim hækkunum, sem n. gerði, koma heimild til nokkuð frekari niðurskurðar en heimilaður var í fjárlögum, sem nú gilda. Ég álít það vera mjög forsvaranlegt að afgr. þetta frv. með þessum niðurstöðutölum nú vegna þessarar væntanlegu heimildar. Ef þessi heimild væri ekki veitt, verð ég að segja, að frv. væri að mínu áliti mjög ógætilegt.

Ég ætla ekki að fara út í neina einstaka liði frv. Ég gæti talið upp ýmsa liði gjaldamegin, sem ég er sannfærður um, að myndi vel mega lækka mjög eða feila alveg burt, ef Alþ. vildi viðurkenna, að við þyrftum að afgr. veruleg kreppufjárlög. Nú skilst mér hinsvegar, að meiri hl. fjvn. hafi ekki viljað viðurkenna, að slíkt ástand væri skapað í landinu, að við ættum að afgr. kreppufjárlög, og ég vænti, að Alþ. verði þarna á sama milli. Þetta er að sönnu annað sjónarmið en ég hefi, því ég er þeirrar skoðunar, að ástandið sé þannig, að við hefðum gert skynsamlegast í að samþ. fjárlög þannig, að þau væru fullkomin kreppufjárlög.

Viðvíkjandi brtt. n. við tekjuliðina vil ég taka það fram, að ég gat að sönnu ekki orðið sammála um, að það væri varlegt að taka þær hækkanir allar upp, sem þar er gert. Ég held, að það sé óskynsamlegt, ekki sízt þegar það liggur fyrir, að ef til vill verður að skera niður eitthvað af útgjöldunum, að vera að blekkja sjálfan sig með því að áætla tekjuliðina of hátt. Ég vil í þessu sambandi taka eitt dæmi. Hv. frsm., sem að sjálfsögðu vandaði mjög til sinnar framsögu, gat um hækkun á áætluðum tekjum útvarpsins. En þess er vert að geta í sambandi við þessa áætlun, að hún er frá hálfu okkar nm. byggð á því, að útvarpsnotendur verði jafnmargir og þeir nú eru, en slíkt er ekki varlega áætlað. Útvarpsstjóri hafði sjálfur gert sínar till. nokkru lægri til ríkisstjórnarinnar. Og þegar ekki er tryggt, að hægt sé að sjá fyrir nýjum útvarpstækjum, er ekki varlegt að gera ráð fyrir, að útvarpsnotendur verði jafnmargir og þeir eru nú.

Það verður auðvitað að skeika að sköpuðu, hvort þessar áætlanir okkar standast, en ég hlýt að nota þetta tækifæri til að láta í ljós og endurtaka þá skoðun mína, að það hefði verið skynsamlegra fyrir Alþ. nú að viðurkenna það, að svo langt er komið í okkar fjárhagsvandræðum, að við getum vel forsvarað það gagnvart þeim mönnum, sem eiga von á ýmiskonar fjárhagslegu liðsinni frá ríkinu, að lofa engum slíkri liðveizlu að þessu sinni. Ég hefði kosið miklu frekar, að önnur leið hefði verið farin en sú, að heimila stjórninni þennan niðurskurð. Ég hefði heldur kosið, að farið hefði verið eftir till. hæstv. fjmrh., að hafa fjárlögin lægri, en heimila stj. að greiða vissan hundraðshluta fram yfir á ýmsum tilgreindum liðum fjárlaganna, ef tekjur ríkissjóðs leyfðu það. Þessi aðferð hefði verið betri að mínu áliti, vegna þess að það er fjöldi manna í landinu, sem hlýtur að gera ýmsar ráðstafanir með hliðsjón af þeim fjárhæðum, sem á fjárlögum standa. Þetta getur því leitt til ýmiskonar erfiðleika fyrir menn. Hitt hefði verið þægilegra, að á fjárlögum hefði staðið lægri fjárhæð, en þar með fylgt heimild til hækkunar, ef tekjur ríkissjóðs leyfðu það.

Mér ber ekki að hafa þessi orð fleiri, þar eð ég hefi samþ., að fjárlfrv. væri lagt hér fyrir eins og það er nú úr garði gert. En þessi orð eru fyrst og fremst sögð til þess að gera grein fyrir því, að ég tel mér frjáist að greiða annaðhvort ekki atkv. eða greiða atkv. á móti einstökum liðum í till. n., sem ég tei, að séu ógætilega innsettir.