13.03.1940
Neðri deild: 16. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

51. mál, lax- og silungsveiði

*Frsm. (Pétur Ottesen):

Ég ætla ekki miklu við það að bæta, sem sagt var um þetta frv. við 1. umr. þessa máls. Landbn. hefir athugað frv. og komizt að þeirri niðurstöðu, að mæla með framgangi þess. Eins og ég tók fram við 1. umr. um þetta mál, þá var það tilætlunin með þeim breyt., er gerðar voru á I. um lax- og silungsveiði árið 1936, að ná þeim tilgangi að því er snertir laxveiði í árósum og leirum, sem nú er ætlazt til að náist með þessu frv. Orðalag 5. gr. laxveiðilaganna frá 1936 hefir ekki samkvæmt fenginni reynslu náð fullkomlega tilgangi sínum. Samkv. efni sínu gekk sú gr. út á það, að girt yrði fyrir þann árekstur, sem af þessu hefir leitt, en það hefir ekki tekizt betur til með orðalagið á þessari gr. í þeim brtt., sem samþ. voru á Alþ. árið 1936, en svo, að það kom í ljós, að menn fóru að leggja net og girðingar alllangt út í árósa og leirur í því skyni að veiða lax í þau net, sem þar voru lögð. Samkv. orðanna hljóðan í l. eins og þau eru nú eru takmörkin fyrir því, hvar megi leggja net, miðuð við breiddina á árósum eða leirum, en nú er það víða svo, þar sem ár falla til sjávar, að þær renna í höfuðálum og kvíslum, og það skiptir mjög miklu máli í því sambandi, að höfuðállinn sé ekki tepptur fyrir laxagöngu og að ekki verði þvergirt fyrir höfuðála eða kvíslar, eins og sumstaðar hefir verið gert, og kominn var nokkur rekspölur á á síðastl. ári. Með þeirri breyt., sem farið er fram á í þessu frv., að aldrei megi leggja laxagirðingar lengra út en í miðjan höfuðál, á að vera tryggt, að ekki verði lagðar miklar hömlur á göngu laxa upp eftir ánum, og er þessi breyt. gerð í því skyni að varna því.

Ég vil þess vegna mælast til þess fyrir hönd landbn., að þessi breyt., sem réttara sagt er aðeins skýring á ófullkomnu orðalagi, nái greiðlega fram að ganga og að hægt verði að breyta l. í þá átt, sem ætlazt var til í öndverðu. — Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um þetta.