16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

51. mál, lax- og silungsveiði

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti! Ég á nú hér smábrtt. við frv. þetta. Eins og hv. þm. er kunnugt, er það ákvæði nú í laxveiðil., og bannar að veiða lax í sjó. atkvæði þetta hefir vitanlega komið mjög harkalega fram á þeim mönnum, sem eiga jarðir, sem liggja að sjó, þar sem þannig stendur á, að unnt er að veiða lax í net við strendur jarðanna. Og það má jafnvel draga í efa, hvort með þessu ákvæði á sínum tíma hefir ekki verið höggvið allnærri ákvæðum stjskr. um eignarrétt manna. Skal ég samt ekki fullyrða neitt um það. Og bæði ég og aðrir, sem stóðum að þessari löggjöf, vildum beygja okkur undir þá nauðsyn, sem við sáum á því að takmarka nokkuð laxveiði í sjó, fyrst og fremst vegna þess, að það þótti nauðsyn, með fordæmi annara þjóða fyrir augum, að tryggja, að laxinn gæti gengið nokkurn veginn óhindrað upp í árnar, því að þar hrygnir laxinn, eins og menn vita, þannig að laxinum yrði ekki fullkomlega útrýmt. Í öðru lagi var því slegið föstu með, að laxinn ætti að vera til nytja þeim bændum, sem á laxveiðijörðum búa, og það ætti að tryggja þeim bændum framvegis afnot af laxveiði, sem á þeim jörðum eru, sem hingað til hafa haft þau hlunnindi, og þetta viðurkenni ég sem sjálfsagða stefnu. Í þriðja lagi var því haldið fram, að það, að banna laxveiði í sjó, komi laxveiðijörðum í meira álit hjá erlendum mönnum, sem koma hingað til lands til þess að stunda laxveiðar, því að þeir vita, að laxveiði í sjó eyðileggur að meira eða minna leyti laxveiði í ám. Ég viðurkenni allar þessar staðreyndir. Og sú brtt., sem ég ber fram hér, ríður ekki í bága við neina þeirra. Samt sem áður vil ég gefa heimild þeim, sem búa við firði og flóa, þar sem lax gengur um, að leggja net í fjöruborðið á þurru, þannig að sjór falli í þau um flóð, ef ske kynni, að lax kæmi í þau. Með því ákvæði er þeim bændum ekki fyrirmunaður sá réttur með öllu, sem þeir hafa haft frá alda öðli til að veiða lax í sjó og getur verið vafasamt, hvort ekki er brot á stjskr. að taka af þeim með lagaákvæði. Ég þykist ekki með þessu hafa brotið neina af þeim meginreglum, sem á sínum tíma voru bornar fram sem ástæður fyrir því að banna að veiða lax í sjó. Fyrst og fremst er það sjáanlegt, að ekki getur nein hætta stafað af því þannig, að laxveiði í ám standi af því hætta, þó að netstúfur sé lagður í fjöruborðið um fjöru, ef ske kynni að ein og ein laxkinn kæmi í hann öðru hverju, með tilliti til þess, að heimilað er að leggja laxanet í ósa og leirur, þar sem þrengsli árinnar eða laxafarvegsins eru miklu meiri heldur en víða er með fjörðum og flóum. Og í öðru lagi hagar þannig til, að þeir, sem jarðir þessar eiga, eru engu síður bændur heldur en þeir, sem eiga lasviðijarðir upp með ánum í sveitunum, þannig að bændur í landinu njóta laxveiðinnar eftir sem áður. Í þriðja lagi sé ég ekki betur en að þrátt fyrir það, þó að þetta leyfi væri veitt, væri hægt að segja með jafngóðri samvizku og það er hægt nú bæði Englendingum og öðrum, sem hingað til lands koma til að veiða lax, að hér væri bannað að veiða lax í sjó, vegna þess, að þetta er nú þegar ekki undantekningarlaust í l. Fyrst og fremst leyfa þau þeim mönnum laxveiði í sjó, sem hafa látið meta þau hlunnindi í fasteignamatinu 1931. Í öðru lagi er leyft að veiða lax í ósum, sem er meiri og minni laxveiði í sjó, þrátt fyrir það, þó að ekki megi veiða lax í sjó eftir öðru ákvæði l. Þetta, sem felst í brtt. minni, er ekki nema dálítil útafbreyt. á þeim ákvæðum, sem nú þegar leyfa mönnum að veiða lax í sjó. Og það á því ríkara gildi sem það jafnar nokkuð aðstöðu manna til laxveiða frá því, sem í l. er gert ráð fyrir.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á, að með þessum ákvæðum er á engan hátt vikið frá þeirri meginstefnu, sem nú er í l., að bönnuð sé yfirleitt laxveiði í sjó; ekki heldur þeirri meginreglu, að bændur landsins njóti þessarar veiði ekki er heldur gengið svo langt með þessu ákvæði, að ekki sé hægt að segja útlendingum eftir sem áður, að laxveiði í sjó sé bönnuð. En hinsvegar kemur hér ofurlítið á móti þeim órétti, sem bændum var gerður á sínum tíma með því að banna laxveiði í sjó.