16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

51. mál, lax- og silungsveiði

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég held að hv. þm. búi sjálfur til þær gryfjur, sem hann óskar eftir. að Alþ. sjái í þessu máli. Hann byrjar að tala um þessa heilögu meginreglu, að ekki megi veiða lax í sjó, en þó viðurkenndi hann, að strangt tekið mætti veiða lax í sjó, og þetta meinlausa ákvæði, sem ég kem með, breytir alls ekki þeirri meginreglu. Meginreglan er aðeins með þessum örfáu undantekningum, svo að ef Englendingar trúa því nú, að ekki megi veiða hér lax í sjó, þá geta þeir eins trúað því, þótt till. mín verði samþ., svo að þetta á ekki að spilla áliti Englendinga á laxveiði hér.

Hann gerði mikið úr því, að leyfa ætti að veiða lax hvar sem væri við strendur landsins. Ég veit, að hann segir þetta móti betri vitund, því að honum er kunnugt um, að það er ekki alstaðar hægt að veiða lax við strendur landsins. Það er aðeins í örfáum stöðum, sem slíkt getur komið til mála. Þar með er líka svarað þeirri fyrirspurn, sem hann bar hér fram, hvernig ætti að hafa eftirlit með þessari veiði, ef þessu ákvæði væri breytt. Ég veit ekki betur en að eftirlit sé haft með laxveiðinni alstaðar þar, sem veiði er, og eins mundi það verða. Hv. þm. þarf ekki að óttast, að farið yrði að hafa eftirlitsmenn austur með öllum söndum á Suðurlandsundirlendinu, svo að ég nefni einn stað. (PHann: Þetta hefir nú verið reynt á Eyrarbakka í lögleysu). Það er nú ekki langt frá laxeiðistað, svo að það hefir verið hæt að hafa eftirlit með því.

Þá var hann, að bera fyrir brjósti kjósendur mína uppi í Stafholtstungum og sagði, að ekki fengju þeir þá laxa, sem veiddir væru vestur með Mýrum. Ef á að miða þetta eingöngu við mína kjósendur, þá á ég þá líka vestur á Mýrunum, og ég sé ekki betur en að þeir megi veiða einn og einn lax á móti þeim hundrað, sem þeir veiða uppi í Stafholtstungum. Ég hygg, að skaparinn hafi alveg eins ætlað þeim að fá eitthvað af þeim laxi, sem fer framhjá þeirra bæjardyrum, eins og þeim, sem búa lengra uppi í landinu.

Hv. þm. segir, að þeir, sem ég ber hér fyrir brjósti, hafi vanrækt að telja fram laxveiði við fasteignamatið 1922. við vitum, að það eru því, smávegis hlunnindi, sem menn hafa ekki hirt um að telja fram. fönnum hefir ekki þótt taka því, þó að þeir hafi fengið nokkur þúfutittilingsegg eða lax og lax eða silung og silung. Það getur því ekki talizt nein höfuðsynd, þó að þeir hafi ekki talið fram þessi smávægilegu hlunnindi, og ekki ástæða til að taka þau af þeim fyrir það frekar en önnur smávægileg hlunnindi, sem menn hafa ekki talið fram.

Hv. þm. segir, að ef það teldist brot á stjórnarskránni að banna mönnum að veiða lax innan netjalaga, þá sé það eins stjórnarskrárbrot að banna mönnum að veiða úti á fjörðum. Það er allt annað, því að firðir og flóar eru almenningseign, en netjalög hafa jafnmikinn rétt á sér og jörðin sjálf, og að skerða rétt manna á netjalögum er alveg eins mikið brot eins og að skerða rétt manna á þurru landi.

Ég býst við, að það upplýsi málið ekki mikið, þó að við förum að karpa um þetta áfram. Málið er öllum ljóst og þekkt frá fyrri árum, svo að ég tel ekki ástæðu, nema sérstakt tilefni gefist til, að ræða það frekar.