28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

11. mál, vitabyggingar

*Emil Jónsson:

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. atvmrh, fyrir að hafa flutt frv. þetta. Ég hefi þrásinnis á þeim stutta tíma, sem ég hefi haft þessi mál með höndum, látið þá skoðun mína í ljós, að þetta bæri að gera, að ákveða, að vitagjaldið allt rynni eingöngu til vitamálanna. Þetta mun og skoðun allra sjómanna og annara, er um málið hafa hugsað, og hafa áður borizt kröfur í þessa átt, þótt ríkið hafi ekki séð sér fært að verða við þeim.

Hæstv. ráðh. hefir fært þau rök fyrir máli sínu, að ég tel óþarfa að bæta þar nokkru við, enda hefir aldrei skort á, að menn viðurkenndu rök þau, er fram hafa verið færð þessu máli til stuðnings, heldur hefir ríkissjóður ekki séð sér fært vegna fjárhagsörðugleika að vera án þessa tekjuauka. Ég álít, að þetta sé á misskilningi byggt. Ríkissjóður hefir ekki efni á, að skipulag vitamálanna sé ekki svo sem bezt verður á kosið, og það getur kostað hann meira fé en þeim hluta vitagjaldsins nemur, er til þessa hefir runnið í ríkissjóð. Hæstv. ráðh. benti á það, að nokkuð á aðra millj. kr. skorti á það, að allt vitagjaldið hafi runnið til vitamálanna. Ef þessi upphæð hefði verið notuð öll í þágu vitamálanna. tel ég, að um heimingur þeirra 55 vita, sem ráð er fyrir gert í vitalögunum, hefði nú verið byggður. Meðalkostnaður við hina smærri vita nemur frá 30-10 þús. kr., og hefði því mátt reisa um 25–30 vita fyrir þetta fé, ef notað hefði verið.

Ég mun svo ekki lengja umr. frekar, enda hefi é5 við önnur tækifæri í tilefni af frv. hv. 6. þm. Reykv., er hann hefir borið fram áður og fól í sér svipað ákvæði, látið í ljós hug mínu til þessa máls. Rök hæstv. ráðh. voru svo skýr og glögg, að ég hefi þar engu við að bæta, en ég vildi aðeins láta í ljós þakklæti mitt til hv. flm. frv. Að málið fái ekki endanlega afgreiðslu sí meðan styrjöldin geisar, tel ég ekki aðalatriði; maður vonar, að einhverntíma ljúki þeim hildarleik, og þá verður unnt að hefjast handa með fullum krafti.