11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

11. mál, vitabyggingar

Thor Thors:

Ég hefi leyft mér að bera hér fram smábrtt. við þetta frv. á þskj. 90. Hún er þess efnis að bæta við í vitalögin nýjum vita á Arnarstapa á Snæfellsnesi.

Það er svo mál með vexti, að þarna er gersamlega vitalaust, og siglingar til og frá þessum stað eru þess vegna mjög hættulegar. Það er einnig orðið mjög erfitt að fá skip til þess að koma við á þessum stað sökum vitaleysisins.

Ég hefi borið þessa brtt. undir álit vitamálastjóra, og hann hefir tjáð mér, að hann sé mér sammála um það, að nauðsyn sé á að reisa þennan vita svo fljótt sem ástæður leyfa. vænti ég þess vegna, að þessi brtt. fái góðar undirtektir hér í hv. d.