28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

12. mál, tilraunir í þágu landbúnaðarins

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Á Alþ. 1938 var samþ. þál., sem fól landbúnaðarráðh. að skipa mþn. til þess að gera till. um fyrirkomulag varðandi rannsóknar- og tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins. Milliþinganefnd sú, er ráðh. skipaði, samdi frv. til l. um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins. Frv. fylgdi ýtarleg grg., og var það lagt fyrir Alþ. 1939, en náði ekki afgreiðslu á því þingi. Nú höfum við tveir nm., er setu eigum á Alþ., hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) og ég, leyft okkur að bera frv. fram að nýju.

Tilgangurinn með því að setja l. um þetta efni er að samræma þá tilraunastarfsemi, sem rekin er í landinu, og þá fyrst og fremst á tilraunastöð ræktunarfélags Norðurlands á Akureyri og tilraunastöð Búnaðarfélags Íslands á Sámsstöðum. Eftir að atvinnudeild háskólans var sett á fót, hefir landbúnaðardeildin tekið upp nokkra tilraunastarfsemi þar, aðallega á sviði jarðræktar og búfjárræktar, og loks eru tilraunir deildarinnar varðandi mæðiveikina og garnaveikina. Nauðsynlegt er að koma föstu skipulagi á alla þessa tilraunastarfsemi, sem Búnaðarfélag Íslands, Ræktunarfélag Norðurlands og ríkið, eða atvinnudeildin, rekur hvert að sínum hluta. Eigi þessar tilraunir að koma að fullum notum, verður að vera samræmi þar á milli, og er það höfuðtilgangur frv., að komi hér á föstu skipulagi. Hefir n. við samningu frv. haft samvinnu við aðaltilraunamenn okkar, á Akureyri og Sámsstöðum, en einnig við forráðamenn bændaskólanna, sem ætlazt er til, að hafi búfjárræktartilraunirnar með höndum.

Hjá okkur hefir litlu fé verið varið til þessara tilrauna, eða aðeins um 30 þús. kr. árlega, og munu hvergi vera reknar jafnódýrar tilraunastöðvar og á Akureyri og Sámsstöðum. Nú vil ég auðvitað ekki leggja þær til jafns við erlendar tilraunastöðvar, sem hafa yfir margfalt meira fé að ráða, en árangurinn hefir verið mikill og góður með jafnlitlu fé og varið hefir verið til þeirra.

Ég hefi orðið var við, eftir að frv. kom fram n Alþ., að margir eru hræddir við þann útgjaldaauka, sem það hefir í för með sér fyrir ríkissjóð. því er ekki að leyna, að það mun hafa nokkurn aukinn kostnað í för með sér, þegar frv. væri framkvæmt út í yztu æsar, eins og gert er ráð fyrir að verða muni með tímanum. en sá kostnaðarauki er ekki mikill, og er gerð nákvæm grein fyrir því í grg. fyrir frv., sem lá fyrir síðasta Alþ.

Sé ég ekki ástæðu til að sundurliða það frekar. En jafnvel þó að ekki yrði hækkað fjárframlag til tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins, væri samt mikið unnið við það, ef þetta frv. yrði að l., því að þá yrði hægt að koma á ýmsum endurbótum með samvinnu milli tilraunastöðvanna, enda þótt fjárframlagið yrði ekki hækkað. Enda þótt segja megi nú, að ekki blási byrlega með að fá hækkuð fjárframlög hjá Alþ., þá leggjum við flm. þessa frv. ríka áherzlu á, að það fái afgreiðslu nú á þessu þingi, því að það getur gert mikið gagn, jafnvel þó að ekki verði veitt meira fé til slíkrar tilraunastarfsemi en gert hefir verið á undanförnum árum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Það var mælt fyrir þessu frv. af hv. þm. A.-Húnv., þegar það var lagt fram hér á Alþ. í fyrra, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það, sem hann sagði, eða það, sem skýrt er frá í grg., sem fylgdi frv., þegar það var lagt fram á Alþ. í fyrra. Ég vil að lokum leyfa mér að mælast til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til landbn.