29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

12. mál, tilraunir í þágu landbúnaðarins

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Frv. þetta er komið hingað frá hv. Nd. Þar var það flutt af þeim hv. 2. þm. Skagf. og þm. A. Húnv., en þeir voru tveir af fimm, sem skipaðir voru í milliþn. til þess að athuga þessi mál. Milliþn. skilaði áliti til stjórnarráðsins, sem kemur hér fram í frv.-formi. Í frv. þessa er lagður sá framtíðargrundvöllur, sem hugsaður er um skipun tilraunamála landbúnaðar í framtíðinni, og er ætlazt til, að framkvæmdirnar komi stig af stigi, eftir því sem fé er veitt til þeirra. Að samþykkja frv. er því engin hætta; það er jafnan á valdi Alþingis, hvenær fé er veitt til framkvæmda þessum málum, hvenær þessi starfsemi er færð í það form, sem frv. gerir ráð fyrir, en það getur hún smábreytzt í á fleiri árum eða áratugum.

Um það verður ekki deilt, að það er margt í framkvæmdum þeim, sem gerðar hafa verið vegna landbúnaðarins, sem ekki er eða hefir verið nægilega undirbúið og því orðið dýrara og óhagstæðara en eila. Annars eru hér á landi miklu betri efni til vísindalegra rannsókna en erlendis, sérstaklega að því er snertir búfé okkar. Það er ekki greint í sérstaka margræktaða stofna. Það er miklu nær því að vera eins og náttúran gerði það í upphafi, ef svo mætti að orði komast. Það er því búið fjölda af eiginleikum til rannsókna, sem erlendum vísindamönnum myndi þykja hið mesta happ i. Hvernig sem á mál þetta er því lítið, þá verður ekki annað sagt en að það sé gott og nauðsynlegt og sjálfsagt að samþ. það. Ef frv. væri útfært út í æsar, myndi það baka ríkissjóði ca. 120 þús. kr. aukaútgjöld, en nú er gert ráð fyrir að hefjast aðeins handa um frekari framkvæmdir en nú eru, smátt og smátt, eftir því sem fé verður til þeirra veitt á hverjum tíma.