12.03.1940
Neðri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

59. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Það hefir oft verið á það bent á undanförnum þingum, að slík ákvæði sem hér um ræðir væru lítil vörn gegn þeim hættum, sem stafa af dragnótaveiðum á fjörðum og flóum inni, enda virðist nú hafa komið í ljós, að t.d. ákvæði gildandi l. um lágmarksþyngd þess fiskjar, er flytja má í land, hefir ekki komið að liði, og á nú að hverfa frá því ákvæði og reyna að miða frekar við stærð fiskjarins.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þótt þessi breyt. verði gerð, er hún gersamlega jafnhaldlaus, því að sannleikurinn er sá, að þegar einu sinni er búið að taka fiskinn á þilfar, er hans æfiskeiði lokið í langflestum tilfellum, hvort sem um er að ræða flatfisk eða annan. Hitt eru undantekningar, ef þessum örlitlu bröndum er sleppt strax með lítilsháttar lífsmarki, að þær tóri áfram.

Um ákvæðið um möskvastærðina er svipað að segja; það kemur að sáralitlum notum, því að það er svo lítið, sem smýgur í gegn af fiski; það dregst saman í einn vöndul í vörpuna, sem í hana fer, og þannig verður dragnótaaðferðin til þess að tortíma öllu, sem í vörpuna kemur.

Afleiðingin af þessu er svo skýr, enda hafa þeir fræðimenn okkar, sem áður litu svo á, að dragnótaveiði og jafnvel botnvörpuveiði gerðu lítið til þess að granda fiskstofninum, beygt sig fyrir reynslunni og hyggja, að til algerrar eyðileggingar stefni, enda hefir sumum fisktegundum, svo sem lúðu og ýsu, fækkað stórkostlega og er ekki hægt að setja þá fækkun í samband við neitt annað en botnvörpuveiðar og dragnótaveiðar.

Þá má og gera ráð fyrir því, þar sem ekki er haft neitt eftirlit með þessu úti um land, að menn fari sínu fram þrátt fyrir alla lagabókstafi. Þetta er því ekki til neins annars en að blekkja sjáifan sig, að vera að setja þessi ákvæði í lög. Það eina, sem um er að ræða, er að takmarka þessar veiðar, ekki hvað sízt á þeim tímum, sem nú eru, þegar við sitjum meira einir að þessum veiðum en verið hefir. Er því sérstök ástæða einmitt nú að friða grunnmiðin með tilliti til framtíðarinnar.

Ég vil skjóta því til hv. sjútvn., hvort hún vilji nú ekki snúa sér að því að gera einhverjar þær breyt., er að gagni mættu koma, í stað þess að vera að fikta við þennan hégóma, sem er til einskis gagns og einungis til þess að blekkja sjálfan sig.