12.03.1940
Efri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

25. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Erlendur Þorsteinsson:

Eins og nál. ber með sér, hefi ég skrifað undir það með fyrirvara, og þykir mér því rétt að gera grein fyrir honum. Þegar mál þetta var síðast á ferðinni hér í hv. deild, var ég á móti því, og er enn að nokkru leyti, sakir þess, að hér er verið að sjá fyrir sérstökum tekjustofni fyrir einn ákveðinn kaupstað í landinu, en um aðra er ekkert hugsað, eða réttara sagt, þeir hafa engan nýjan tekjustofn fengið, þrátt fyrir brýna þörf. Að ég gekk ekki á móti frv. þessu nú, var af þeim ástæðum, að það lágu svo skýrar upplýsingar fyrir fjhn. um, að vestmannaeyjakaupstaður gæti ekki án þessa tekjustofns verið.

Ég vil nú nota tækifærið og bera fram þá ósk, að n. sú, sem nú vinnur að því að athuga möguleika á því að afla bæjar- og sveitarfélögum nýrra tekjustofna, fari að flýta sér að afgreiða eitthvað í þessum efnum, því að þörfin er mjög brýn.