04.04.1940
Sameinað þing: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

1. mál, fjárlög 1941

Einar Árnason:

Það er gömul venja að fylgja úr garði með nokkrum orðum þeim brtt. við fjárl., sem menn flytja. Ég hefi hvorki margar né stórar brtt., og þess vegna get ég verið stuttorður, og skal ekki tefja tíma þingsins mikið. Þessar brtt., sem ég er 1. flm. að, eru á þskj. 308. vil ég fyrst drepa á VI. brtt., þar sem farið er fram á að auka framlög til vegargerðar yfir Siglufjarðarskarð um 10 þús. kr.

Þetta mál er nokkuð þekkt hér á þinginu, og það var sérstaklega mikið rætt hér á síðasta þingi. Það hefir verið sýnt fram á það, að þessi vegargerð, sem hafin var 1935, mundi ganga nokkuð seint, ef ekki yrði lagt meira fé fram til bennar en gert hefir verið undanfarið. Ef ekki verður hækkað framlag til þessa vegar, þá líða a.m.k. 10–20 ár þangað til hann verður fullger. Þó að leiðin yfir Siglufjarðarskarð sé ekki löng, þá er hún erfið og brött og mjög illt um vegarlagningu. Meðan frá jafnsléttu á Siglufirði og upp á háskarðið eru 5.4 km., en af þessari leið er búið að leggja veg yfir aðeins 3 km., og kostnaðurinn við lagningu þessara 3 km. hefir verið sá, að ríkissjóður er búinn að leggja fram 80 þús. kr., en nokkuð hefir verið lagt fram af Siglfirðingum sjálfum. Nú er eftir að leggja 2.4 km. til þess að vegurinn sé kominn upp á háskarðið, og með sama framgangi mun það taka a.m.k. 6–7 ár, og þá er eftir leiðin öll hinum megin við skarðið, til þess að komizt verði í samband við þann veg, sem þar er gerður. Það má gera ráð fyrir því, að það taki ekki skemmri tíma að koma veg þá leið, og þá kemur í ljós, að það mun þurfa 10–20 ár ekki vera mikil hagfræði í því að leggja tugi þús. í þennan veg á þann hátt, að það líði hálfur mannsaldur þangað til nokkur maður hefir gagn af honum. Þess vegna virðist mér, að til þess að þetta komi að gagni, Væri miklu heppilegra að leggja fram meiru fé á ári, en fækka heldur árunum. Nú mun engum detta í hug, þar sem löggjafarvaldið hefir gert þennan veg að þjóðvegi og þegar lagt fram allmikið fé til vegarlagningar og með því viðurkennt nauðsyn þessarar samgöngubótar, að við byrjunina eina verði látið sitja, sérstaklega þegar svo er háttað um Siglufjörð, að það er engin leið önnur en þessi eina til þess að koma bænum í vegasamband. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að segja meira um þessa litlu till., vegna þess að þetta mái hefir áður verið rætt svo mikið hér á þinginu, að þm. er það kunnugt.

Ég hefi hér einnig þrjár smábrtt. við 15. gr., XX á sama þskj., um lítilfjörlegan skálda- og listamannastyrk til þriggja manna. Ég vil strax taka það fram út af þessum till., að ég mun taka þær aftur, ef till. fjvn. um það að setja slíka styrki undir menntamálaráð verður samþ. En þar sem ekki er vitað, hvernig um þá till. fer, finn ég ástæðu til að segja aðeins örfá orð um þessar brtt. Hin fyrsta er um það að veita Björgvin Guðmundssyni tónskáldi Akureyri 1500 kr. listamannastyrk. Björgvin Guðmundsson er vopnfirðingur að ætt og óist þar upp til tvítugs aldurs. Þá fór hann til Ameríku (1911) og var þá umkomulaus, fátækur unglingur. Það hafði þá þegar komið í ljós hjá honum tónlistar- og sönghneigð, en tækifæri eða möguleikar voru engir til þess fyrir hann að afla sér þeirrar þekkingar, sem þurfti til þess, að honum yrði nokkuð úr þeim hæfileikum. Þegar hann kom til Ameríku einn sins liðs, voru vitanlega ekki mörg tækifæri fyrir hann, fátækan og einmana, til þess að geta nokkuð verulega gert í þessu hugðarmáli sínu. En þó tókst honum, eftir fá ár, 1915, þrátt fyrir alla örðugleika, þegar hann var vinnumaður á búi einu í Ameríku, að semja sitt fyrsta stórverk, „oratorium“ — helgimál — við alla Strengleika Guðm. Guðmundssonar skálds. Eftir þetta fer að koma skriður á starf hans, semur hann þá einsöngslög og stærri tónverk. Þá samdi hann mikið verk í helgimálastíl, og hafði fyrir texta „Friður á jörðu“ eftir sama skáld, G G. Um eina af hljómkviðum Björgvins, sem send var einu frægasta tónskáldi og pianosnillingi, segir þessi frægi maður orðrétt: „Hljómþula hans er ósvikin og betur gerð en langflest fræg tónskáldi núlifandi gætu.“ Árið 1924 samdi Björgvin nýtt, stórt tónverk: hátíðarljóðið „Til komi þitt ríki“, þar sem hann þýddi textann sjálfur úr ensku, því hann er hagmætur vel. Þetta verk hans var sungið af 60 manna kór í Vinnipeg 1926 við ágætan orðstír. Upp úr þessu fer hann að vinna sér það orð og álit, að Íslendingar vestan hafs veita honum styrk í þeim tilgangi, að hann kæmist á konunglega hljómlistarskólann í London. Hann komst í 3. bekk skólans, og var þá 3 ára nám framundan, en því lauk hann á 20 mánuðum. Eftir þetta starfaði hann í Ameríku, oft í Vinnipeg, að hljómlistarkennslu. Skömmu síðar samdi hann mjög stórt hátíðaljóð, „Örlagagátuna“, og alþingishátíðaljóðið, er hann nefndi: „Íslands þúsund ár“, sem líklega flestir Íslendingar hafa heyrt og þekkja. Haustið 1931 rættist ósk Björgvins, sú, að komast heim úr útlegðinni, réðst hann þá söngkennari við menntaskóla Akuryrar. Þetta var að sjálfsögðu léleg atvinna, en hann þráði að lifa og starfa hér heima. Þegar eftir heimkomuna stofnaði hann stærsta kór blandaðra radda á landi hér. Tónsmíðar Björgvins hafa hlotið ágæta dóma hjá mjög merkum hljómlistardómendum hérlendis, svo það mun óhætt að telja, að hann sé einn af allra fremstu tónlistarmönnum og tónsmiðum, sem við höfum átt. Ég hefi þegar nefnt örfá af stærstu verkum hans, en auk þess hefir hann samið um 70–80 einsöngslög og 50–60 karlakórslög og smálög. Það sést af þessu, að Björgvin er afkastamikill á tónlistarsviðinu og að hann á það skilið, að til hans sé eitthvað hugsað af hinu opinbera. Nú situr þessi maður við skorinn skammt norður í landi og auðgar þjóðina af dýrmætum tónverkum. Þessi fjárl., sem við nú erum að afgreiða, eru fyrir árið 1941, og það vill svo til, að einmitt á því ári verður Björgvin fimmtugur. Mér finnst það vel við eigandi, að ríkissjóður veiti honum þennan glaðning á fimmtugasta ári hans, svo hann sæi, að einhvers væri metið það starf, sem hann hefir unnið í þágu íslenzkrar tónlistar.

Þá er hér brtt. um 1000 kr. styrk handa Friðgeir H. Berg á Akureyri. Ég geri ráð fyrir, að e.t.v. séu það nokkuð margir lm. þm., sem ekki þekkja þennan mann. Hann er maður yfirlætislaus. Hann er einn af þeim Íslendingum, sem starfa í kyrrþey, en hlotið hafa í vöggugjöf marga ágæta kosti, og um hann má segja, að hann hefir hlotið þá vöggugjöf að vera prýðilega hagmæltur. Hann hefir gefið út eina kvæðabók, en hann er líka skáld í óbundnu máli og hefir einnig gefið út eina slíka bók. Þessi maður er heilsuveill, þolir ekki erfiðisvinnu og hefir lítið starf með höndum, eins og margir aðrir, sem eru svipað settir og hann í þjóðfélaginu. Hann hefir áður sótt um það til þingsins, að sér yrði veittur lítilfjörlegur rithöfundarstyrkur, og þeirri styrkbeiðni hans fylgja meðmæli 10 merkra manna, sem þekkja Friðgeir Berg mjög vel og eru nákunnugir högum hans og hæfileikum. Ég ætla ekki að fara að metast um það, hvort þessi maður hafi meiri eða minni hæfileika en ýmsir þeir, sem þegar hafa fengið skáldastyrk, það finnst mér ekki eiga við. En af því ég þekki svo vel til mannsins og hans góðu hæfileika og hans erfiðu kringumstæðna, þá get ég ekki gengið framhjá því að láta hv. þm. fá tækifæri til þess að greiða atkvgr. um þessa till. — ef hún á annað borð kemur til atkv. — til þess að þeir með atkv. sínu gætu synt, hvort þeir vildu styrkja þennan mann með lítilfjörlegri fjárupphæð.

Þá er það þriðji maðurinn, sem ég, ásamt hv. samþm. mínum, hefi lagt fram till. um, en hún er sú, að Hallgrímur Valdimarsson á Akureyri fengi 600 kr. styrk. Hann var fyrir fáum árum á 15. gr. fjárl. með þennan styrk, en hefir svo fallið niður af einhverjum ástæðum, og vænti ég, að hv. alþm. vilji leiðrétta það, að þetta skuli hafa fallið niður, því vitanlega á hann alveg sama rétt á því að vera áfram á fjárl. með sinn styrk og hann hafði til að fá hann. Það getur vel verið, af því að þessi maður er lítið þekktur, að þá finnist mönnum ekki ástæða til að veita slíkan styrk sem þennan. Hann er ekki skáld og eiginlega ekki það, sem kallað er listamaður, en hann hefir þó varið allri sinni æfi til þess að styðja listir. Hann hefir unnið allra manna bezt að því á Akureyri að halda þar uppi leiklist. Þótt það kunni að vera svo, að einhverjir hv. þm. telji ekki leiklistina sérstaklega nauðsynlega, þá held ég þó, að menn vildu ekki, að sú starfsemi félli alveg niður með þjóðinni. Eins og geta má nærri, því er það erfitt úti á landi í litlum bæjum að halda uppi leiklist, en það er búið að haldi uppi leiklist á Akureyri í tugi ára — ég hygg í hálfa öld eða meira en það — og það er óhætt að segja, að Hallgrímur hefir verið lífið og sálin í því alla sína æfi, og það mun vera hans verk meira en nokkurs manns annars, að þessu hefir verið hægt að halda áfram með góðum árangri. Ég vænti því, að hv. þm. vilji veita þennan lítilfjörlega styrk, 600 kr., sérstaklega vegna þess, að þarna á í hlut maður, sem alla sína æfi hefir verið þannig settur í lífinu, að hann hefir aldrei haft heilsu til þess að vinna erfiðisvinnu.

Skal ég svo ekki frekar fjölyrða um þessar brtt. mínar, en vil endurtaka það, sem ég áður sagði, að þessar 3 brtt. við 13. gr. mun ég taka aftur, ef till. fjvn. verður samþ. um listamannastyrkina.