04.04.1940
Sameinað þing: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1941

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónason):

Við þm. S.M. eigum saman eina till. á þskj. 327, sem er um það að heimila ríkisstj. að kaupa síldarbræðsluverksmiðjuna í Neskaupstað, ef viðunandi samningar takast um verð og greiðsluskilmála, að dómi síldarverksmiðja ríkisins.

Ég get ekki komizt hjá því að eyða örfáum mínútum af tíma Alþingis til þess að gera grein fyrir þessari till. og færa rök fyrir því, af hverju við förum þessa á leit.

Það er upphaf þessa máls, að síldarbræðsluverksmiðjan á Norðfirði var reist með stuðningi ríkissjóðs, þannig að Alþingi féllst á að ábyrgjast nokkuð af því fé, sem gekk til þess að koma verksmiðjunni upp. Fyrstu árin eftir að verksmiðjan var reist, gekk rekstur hennar ekki sem ákjósanlegast að ýmsu leyti, sem einkanlega stafaði af því, að illa gekk að fá skip til að gera við hana fasta samninga um að leggja þar á land síld, sem var af því, að lega verksmiðjunnar er þannig, að hún liggur við austari jaðar síldveiðisvæðisins. Niðurstaðan af þessum rekstri varð sú, að verksmiðjan varð fyrir alvarlegum rekstarhalla, og endaði hennar saga þannig, að Landsbanki Íslands yfirtók verksmiðjuna í fyrra upp í skuldir hennar við bankann. Nú stendur málið því þannig, að Landsbanki Íslands er eigandi verksmiðjunnar. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefir staðið nokkuð svipað á um fáeinar aðrar verksmiðjur, og nefni ég þar til verksmiðjurnar á Sólbakka og Húsavík og nú seinast verksmiðjuna á Seyðisfirði. Tvær af þessum verksmiðjum, sem teljast mega hliðstæðar verksmiðjunni á Norðfirði, hafa þegar verið keyptar af ríkinu, sem sé Sólbakkaverksmiðjan og Húsavíkurverksmiðjan, og nú hefir hæstv. fjmrh. tekið upp í fjárlfrv. það, sem hér liggur fyrir, till. til heimildar fyrir ríkisstj. til að kaupa verksmiðjuna á Seyðisfirði. Eina verksmiðjan af þessum, sem hliðstæðar eru, sem ríkið er ekki annaðhvort búið að kaupa eða ríkisstj. er heimilað að kaupa. er því verksmiðjan í Neskaupstað. Ég hefi heyrt það á ýmsum hv. þm., að þeir eru á sömu skoðun og ég um það, að þessar litlu verksmiðjur, sem liggja við útjaðar síldveiðisvæðisins, hvort sem er austan eða vestan, eigi einmitt að vera í eigu síldarverksmiðja ríkisins, vegna þess að þótt erfitt geti verið að reka þessar verksmiðjur sjálfstætt, af því að fiskiskipin eru treg til að gera við þær fasta samninga, þá geta þær aftur á móti orðið að miklum notum fyrir síldarverksmiðjur ríkisins sem heild, og sérstaklega getur það verið gott fyrir skipaflota þeirra að geta lagt upp síld þarna, þegar veitt er á þeim svæðum, að löndun síldar er hægust þar. Ég vil benda á, að síðasta sumar var mikið lagt á land af síld bæði á Seyðisfirði og í þessa verksmiðju, sem hér er lagt til, að ríkisstjórninni sé heimilað að kaupa. Eins og ég sagði áðan, þá raskar það ekki því, að erfitt sé að reka þessa verksmiðju sem sjálfstæða verksmiðju, án þess að hún sé í sambandi við stóru verksmiðjurnar á aðalsíldveiðisvæðinu. Ég geri ráð fyrir, að það geti brugðizt til beggja vona, að Landsbankinn sjái sér fært að reka þessa verksmiðju eina út af fyrir sig til langframa, en ég vil leyfa mér að halda því fram, að það geti haft mikla þýðingu fyrir síldveiðiflotann að síldarverksmiðjur ríkisis reki litlu verksmiðjurnar í útjöðrum veiðisvæðisins, þannig að hægt sé að taka við síld á þeim stöðum, sem bezt hentar á hverjum tíma.

Ég geri ráð fyrir, að ríkið gæti orðið eigandi að þessari verksmiðju með sanngjörnu verði. Ég get að vísu ekki nefnt neina upphæð, en ég geri mér ákveðnar vonir um, að komast mætti yfir hana fyrir sanngjarnt verð, miðað við þau not, sem af henni geta orðið undir vissum kringumstæðum. Ég vil benda á það í sambandi við þetta mál, að litlu verksmiðjurnar í útjöðrum síldveiðisvæðisins, eins og verksmiðjurnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað, hafa neyðzt til þess að gera samninga við erlend skip til þess að reyna að tryggja rekstur sinn. Hafa þær ekki séð sér fært annað en gera samninga við erlend skip — á ég þar aðallega við færeysk skip — fremur en að þær væru ekki reknar. Frá almenningssjónarmiði er þetta vafasöm ráðstöfun, að ganga inn á þá braut að leigja erlend fiskiskip til að veiða fyrir verksmiðjurnar, sérstaklega þegar skipin eru rekin af útlendingum. Þótt við höfum miklar verksmiðjur, þá kemur það alltaf fyrir, þegar mikil síld berst á land, að erfitt er að koma henni nógu fljótt í vinnslu. Ég fullyrði, að það, að verksmiðjurnar hafa verið neyddar til að gera samninga við erlend skip, stafar einmitt af því, að þessar litlu verksmiðjur hafa ekki verið reknar í sambandi við stóru verksmiðjurnar á aðalsíldveiðisvæðinu, en ef því yrði komið í kring, þá mætti haga lönduninni eins og skynsamlegt væri í hvert skipti.

Ég vænti, að hv. alþm. geti fallizt á að veita ríkisstj. þessa heimild. Í till. er tekið fram, að leggja skuli málið undir dóm stjórnar síldarverksmiðjanna, eins og gert hefir verið með samskonar mái áður, og eins og gert er í þeirri heimild, sem hæstv. fjmrh. hefir lagt til, að ríkisstjórnin fengi um kaup á síldarverksmiðjunni á Seyðisfirði.

Ég vil aðeins taka það fram aftur, að ef þetta verður ekki gert, þá óttast ég, að svo kunni að fara bráðlega, að eigendur verksmiðjunnar treystist ekki til að reka hana eina út af fyrir sig, og getur orðið af því mikill skaði fyrir síldarútgerðina undir vissum skilyrðum, auk þess sem það væri mjög slæmt fyrir þann stað, sem verksmiðjan er á. Skal ég svo ekki þreyta hv. þm. á lengri grg. um þetta mái. Ég hygg, að ég sé búinn að taka það allt fram, sem mestu máli skiptir frá sjónarmiði okkar flutningsmanna tillögunnar.

Ég mun ekki gera einstakar brtt. við fjárl. að umræðuefni né heldur fjárl. í heild sinni, en vil aðeins skjóta fram nokkrum orðum viðvíkjandi till. þeirri, sem hv. fjvn. flytur í sambandi við styrkveitingar til einstakra manna, og vil ég taka það fram, að mér finnst, að hv. þm. ættu að geta sannfærzt um réttmæti þeirrar till., ef þeir athuga allar þær brtt., sem nú þegar eru komnar fram um styrkveitingar til einstakra manna í sambandi við fjárl. Og ég vil spyrja hv. þm. að því, þótt ég búist ekki við að fá því svarað nú, hvort hv. alþm. álita, að þeir séu dómbærir um það, með þeirri athugun. sem þeir hafa getað haft á þessu máil, hvort allur sá aragrúi manna, sem lagt er til, að fái styrk af ríkisfé, eigi í raun og veru skilið að fá þennan styrk. Ég veit a.m.k., að mig skortir kunnugleik á þeim málum til þess að geta dæmt um það. Ég hefi ekki haft tíma til þess að kynna mér um einstaka menn, hverjar þeirra ástæður eru, og ég hygg, að ég sé ekki einn um þá aðstöðu. Ég hygg, að framkoma alls þessa aragrúa af styrktill. til einstakra manna, sem nú eru komnar, séu sterkasta röksemdin með því, að menntamálaráði verði falið að úthluta þessum styrkjum og Alþingi vísi þeim vanda frá sér. Ég vil skora alvarlega á menn að samþ. þessa till. frá því sjónarmiði, að það, sem þingið hefir haft af þessum styrkveitingum að segja, hefir sett á það leiðinlegan blæ, með þeirri togstreitu, sem hefir átt sér stað á hverju þingi Um Styrkveitingar til einstakra manna, og ég helst, að till. hv. þm. um persónustyrki hafi aldrei gengið lengra en á þessu þingi, og ,það finnast mér vera sterkustu rökin fyrir því, að till. fjvn.samþ., og vil ég sterklega mæla með því.