03.04.1940
Efri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

30. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti ! Þetta frv. er komið hingað aftur frá hv. Nd., sem gert hefir við það þrjár breyt. Fyrsta breyt. er sú, að hún hefir tekið upp í frv. ákvæði um, að leiguliða á jörðum sé skylt að borga brunabótaiðgjöld af húsum á erfðaleigujörðum. Mér er óhætt að segja það, sem einn af þeim mönnum, er fluttu frv. til 1. um erfðaábúð á sínum tíma, að til þess arna var alltaf ætlazt. En ýmsir álíta, að það komi ekki skýrt fram í l. eins og þau eru. Hefir það valdið dálitlum ágreiningi, og því þótti neðri deild réttara að ákveða þetta ótvírætt.

Hinar breyt. báðar eru í þeim kafla l., sem fjallar um óðalsrétt. Fyrri breyt. er um þau skilyrði, sem l. setja fyrir því, að hægt sé að gera jörð að óðalssetri; til þess mega samkv. I. nú ekki hvíla meiri lán á henni en svo, að vextir af þeim nemi 3% af fasteignamatsverði jarðarinnar. En með breyt., er gerð var á frv. í hv. Nd., var takmarkið miðað við 4%, og þess vegna rýmkað nokkuð um þær jarðir, sem geta orðið óðalsjarðir. Í samræmi við þetta er þriðja breytingin, sem gerir ráð fyrir því, að ábúandi geti fengið allt að 75% af virðingarverði jarðarinnar að láni, í stað 50% ef hann þarf að byggja á jörðinni.

Þessar 3 breyt. hafa komizt inn í frv. í hv. Nd. Enda þótt ég telji hvorki breyt. við 3. gr. né 4. gr. til bóta, sé ég ekki ástæðu til þess að senda frv. milli d. vegna þessa, og legg því til. að það verði samþ. með þessum breytingum. Landbn. Ed. hefir ekki fjallað um það, og allir nm. eru alveg óbundnir í þessu máli. Það, sem ég hefi sagt, segi ég fyrir mig, en ekki fyrir hönd n. í heild.