04.04.1940
Sameinað þing: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1941

*Eiríkur Einarsson:

Það er eins og í gamla daga, þegar fjárl. eru hér til umr., að þá er helmigur hv. þm. úti í Iðnó á leiksýningu að gera greinarmun hins forboðna og leyfða í samræmi við gömlu ávaxtasöguna. Hér er því fámennt og góðmennt, en það er líka eins gott að tala við fáa og góða.

Ég er nú ekki aðalflm. að neinni brtt. við fjárl., en ég hefi slæðst til að vera meðflm. að nokkrum brtt. En úr því að hér eru ekki aðrir flm. að þessum till., ætla ég að nota þessa auðu stund til að segja nokkur orð um þær. Það eru tvær till., á þskj. 333, en hin á þskj. 365. sem og á þannig hlut að, og lúta báðar að eflingu mikilsverðra framfaramála. Önnur fer fram á aukinn styrk til skógræktarfélaga landsins, en hún lýtur að Því að styðja ungan fræðimann með styrkveitingarheimild til að efla fiskrækt í stöðuvötnum landsins. Er þetta Skúli Pálsson, og er gert ráð fyrir, að Búnaðarfélagið gefi álit sitt um málið, til tryggingar því, að varlega verði farið.

Til að örva skógrækt og fiskrækt (lax- og silungsveiðar) í landinu er vel varið fé, ef það mætti verða til eflingar því tvennu, sem frá því í fyrndinni og fram til þessa dags hefir orðið til þess að gefa Íslandi Þann blæ, að það sé gott og fagurt, þar sem fiskar vaka í ám og vötnum og skógar klæða landið.

Þá er 3. brtt., sem ég vildi minnast á. hað er till. nr. 33 á þskj. 308, sem ég flyt ásamt hv. þm. Mýr., sem er 1. flm., og fer hún fram á, að veittar verði allt að 100 þús. kr. til að lækka útsöluverð á aðkeyptum áburði fyrir þetta og næsta ár, og er Búnaðarfélaginu ætlað að setja reglur um, hvernig þessu fé skuli úthlutað. Þessu máli var hreyft hér á síðasta þingi, en það fékk ekki framgang. En þar sem málið er aðkallandi, vildum við hreyfa því aftur í trausti þess, að hv. þm. taki því vel. Það þarf ekki að rifja upp, að verð þessarar nauðsynjavöru er orðið svo geipilegt, að mörgum fátækum er ofraun að kaupa hana. Ef landbúnaðurinn og garðræktin eru styrkveitingarþurfi, þá veit ég ekki, hvar það sæi betur stað en hér. Þá er það ekki aukaatriði, að í ýmsum héruðum, þar sem fjársýkin hefir verið skæðust, er talsverð túna- og garðrækt. Ég veit ekki, með hverju þeim, sem þar hafa orðið fyrir skakkaföllum, yrði betur hugnað en því að hjálpa þeim til að auka túnrækt sína og nautpening og svo garðávaxtarækt. Það hefir að vísu ýmislegt verið lögfest til hjálpar þessum mönnum, en sú hjálp kæmi ekki beinna fram á annan hátt en þennan. Vitanlega koma fleiri staðir á landinu til greina að því er snertir þessa verðbólgu áburðarins, en þarna sæi þess á sérstakan hátt mikinn stað. Og þar sem Búnaðarfél. er ætlað að semja reglur um skipulag þessarar úthlutunar, veit ég, að það myndi sérstaklega láta þessa menn njóta styrkjar. Þar sem ég veit, að hv. 1. flm. mun mæla með till., fer ég ekki fleiri orðum um hana, en treysti því, að hv. Alþ. sjái sér fært að verða við henni sakir mikillar nauðsynjar. Ég get gjarnan gert það að innskoti, af því að hv. þm. eru víst í leikhúsi, og það gerir því ekkert til, þó að ég beiti meinlausu málþófi litla stund, að þegar verið er að tala um misfellurnar á jarðræktari., t.d. hina margumtöluðu 17. gr., sem sumir telja, að eigi að standa, en aðrir segja, að ætti að fara, þó að ég vilji ekki leiða hana sérstaklega hér inn í umr., þá vil ég taka fram, að jarðræktari. þyrftu endurskoðunar við. Þegar l. voru samin 1923, var það gert með tilliti til annars viðhorfs um búnaðarframkvæmdir en nú er. L. voru samin með viðhorfi til mikilla styrkja til að þenja út tún og garða, en án forsjár um það, hvort tök yrðu á að halda framkvæmdum í horfinu. Ég hefi áður haft orð á þessu, og þegar ég tek þetta fram, vil ég um leið gera grein fyrir því áliti mínu, að til þess að búnaðinum sé séð fyrir þörfum, ætti styrkur í líkingu við þann, sem till. okkar ræðir um, að skipa framarlega sæti, eins og framkvæmdin sjáif, svo að koma mætti að gagni fyrir aldna og óborna.

Þegar tíminn er svona ríflegur, skal ég nota þessa stund til að minnast á atriði, sem svifur nú yfir vötnunum, þegar rætt er um fjárl. Það er heildarviðhorfið og þær stefnur og þær aðalstefnur, sem fram hafa komið við útbúning fjárl. og þeirra brtt., er við þau hafa verið gerðar. Þar á ég í fyrsta lagi við viðhorfið að því er snertir 16. gr. fjárlfrv., en þar er dregið talsvert úr fjárframlögum til opinberra framkvæmda samkvæmt till. hæstv. fjmrh. Ég álít það virðingarvert af hvaða stjórnarherra sem er að bera fram á þessum tímum fjárlfrv., sem sýnir einlæga viðleitni á því að lækka útgjöld ríkisins vegna knýjandi nauðsynjar, og þó að það geti verið vafa undirorpið, hvort hér sé drepið á það, sem helzt skyldi, er mér ljóst, að ekki er auðvelt að framkvæma þetta, svo að vel sé, með því að breyta til á fjárl., sem frá er gengið frá ári til árs, þar sem margir póstar eru þar svo fastir. Þó verð ég að segja það sem mitt sjónarmið, að ég tel óaðgengilegt fyrr en allt um þrýtur, að ráðast á þá pósta, að svo miklu leyti sem hver liður um sig er hnitmiðaður við þær verklegu framkvæmdir, sem fyrir liggja í landinu í hvert sinn. því á ég með tilliti til minnar sannfæringar ómögulegt með að greiða atkvæði með lækkun á framlögum til landbúnaðarins, sem ekki kemur hlutfallslega jafnt niður á alla liði fjári. Þess vegna álít ég, að þessi lækkunarmöguleiki eigi frekar heima í hinni almennu heimild til handa stj. til að mega lækka útgjöld yfirleitt, ef nauðsyn krefur. Eins og játað er af öllum, að sjávarútvegurinn, eins og fleiri starfsgreinar hér á landi, á við erfiðleika að búa, eins hygg ég, að hið sama megi segja um búendur í landi. Á tiltölulega fáum árum er svo komið, að þeir hafa orðið að nauðsemja um skuldir sínar, og þetta er ekki orðið öruggt ennþá, þannig að ekki þurfi allrar aðgæzlu við til að bjarga því, sem bjargað verður, svo að ekki lendi allt aftur í sama farinu. Af þessu skapast mitt sjónarmið til málsins.

Svo, af því að umræðutími minn er svo frjálslegur og söfnuðurinn hljóður og góður, get ég minnzt á deilumál þau, er fyrir þinginu liggja um úthlutun styrkja til skálda og listamanna. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég er ekkert hrifinn af því, að þm. þurfi að hnotabítast um það, hverjir eigi að fá þessa styrki og hverjir ekki. En þó að mér þyki þetta ekki gott, þá er ekki þar með sagt, að ég sé ánægður með það, sem komið hefir frá menntamálaráði um þetta. Ég hefði talið, að ýmislegt mætti þar betur fara. Og áður en farið var að deila um þetta hér á Alþ., hélt ég því fram í þingræðu, að það væri ótækt, að þm. væru að rífast um þetta á hverju ári og skammta mönnum á diskana. Í höfuðatriðum er þessi skoðun mín óbreytt enn. Ég hélt því fram, að Alþ. yrði að koma þessu af sér. því að svo mikið moldviðri er orðið hér af þessu listræna fólki, skáldum, málurum, söngvurum, sérfræðingum og sérgæðingum. Þeirra tala er legíó, svo að ómögulegt er að greiða atkv. af nokkru viti. Hér mætast þeir beztu og allt niður í aumustu fúskara, sem ekki eiga skilið að koma nálægt því matborði.

Ég hefi sagt frá mínu sjónarmiði, að fyrir mitt leyti hneigist ég að því að fá mér frið frá því að standa í þessari vafasömu úthlutun, því að tilfellin eru svo mörg og vafasöm. Hinsvegar skal ég taka fram, eins og ég lauslega drap á áður, að ég er alls ekki ánægður með það, hvernig menntamálaráð hefir úthlutað þessum styrk. Sumir þeirra, sem eru góðir og gegnir menn og ríkið hefir látið njóta einhverrar úthlutunar áður, voru nú settir hjá, — menn, sem að mínu áliti áttu fremur slíkan styrk skilið heldur en sumir aðrir, sem fengu styrk. Ég vil t.d. nefna eitt tilfelli, sem að vísu er ekki neitt stórbrotið. Einn ágætur kennimaður fyrir austan fjall, séra Jón Thorarensen í Hruna, hefir safnað þjóðsögum og skráð þær af mikilli alúð. Hann hefir gert þetta með listfengi, því að hann er rithöfundur af guðs náð. Hann hefir skráð þjóðstigurnar mjög vel, og vakað yfir því, að það væri sem bezt af hendi leyst. Hann hefir gefið út nokkrar bækur í þjóðsagnasafninu „Rauðskinnu“. En hann var settur hjá við úthlutun menntamálaráðs. Ég mun því vænta þess, að einhverjir þm. sýni glöggan skilning á þessu, því að hér er um réttlætismál að ræða. Þetta er að vísu ekki stórmál, en þar sem aðrir menn hafa orðið styrks aðnjótandi, sem ekki hafa gert neitt listrænt, hefði maður þó getað vænzt þess, að þessi maður hefði fengið að halda sínum styrk. Mér þykir verst, að hér er enginn viðstaddur úr menntamálaráði, en kannske fær þetta mál ekki mikla áheyrn hjá þeim góðu herrum. Samt hefði mér þótt betra, ef svo hefði staðið á. Ég gæti nefnt dæmi þess, að maður hefði komizt á næsta árs úthlutun, ef hið sama menntamálaráð færi með þessa úthlutun fyrir það tímabil.

Ég fékk leyfi hæstv. forseta (HG) til þess að tala nú, enda þótt ég væri aftarlega á mælendaskrá, vegna þess að aðrir hv. þm. þóttust eiga nauðsynjaerindi í leikhúsið að horfa þar, held ég, á Mjallhvítareplið. Og hafa ýmsir jafnan glæpzt á hinum eitraða helmingi hinna forboðnu ávaxta, og veit ég aldrei, hverjir koma þaðan lífs.