02.04.1940
Efri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

76. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Allshn. hefir haft málið til athugunar og orðið sammála um að leggja með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Frv. er upphaflega flutt af hv. allshn. Nd., eftir beiðni hæstv. atvmrh., og aðalbreyt. frá gildandi löggjöf um þetta efni er í því fólgin, að samkv. l., sem sett voru 1928 um eftirlit með verksmiðjum og vélum, hafði atvmrh. heimild til þess að skipa 4 skoðunarmenn til þess að hafa þetta eftirlit með höndum, en fram að þessum tíma hefir skoðunin verið að mestu leyti í höndum eins manns um allt land. Framan af var þetta nægilegt, vegna þess að starfið var ekki umfangsmeira en það, að hann komst yfir þetta allt, en síðan 1928 hefir iðnaður, sem kunnugt er, aukizt mjög, og víða úti um land hafa verið sett á stofn fyrirtæki, sem nauðsynlegt er að hafa eftirlit með samkv. þessum l., og þetta er orðið svo umfangsmikið starf, að ekki er öruggt um, að það sé í lagi, ef það á að vera allt í höndum eins manns. því er gert ráð fyrir því í frv., að skipaður verði einu aðalskoðunarstjóri, sem sé búsettur í Reykjavík, en auk þess hafi hann sér til aðstoðar skoðunarmenn í öllum kaupstöðum landsins, sem framkvæmi allar vandalitlar skoðanir, og allt sé það undir yfirumsjón yfirskoðunarmannsins. Hingað til hefir það verið þannig, að ríkissjóður hefir ekkert fé lagt fram til þessarar skoðunar. Gjöldin, sem samkv. gjaldskrá eru lögð á fyrirtækin fyrir hverja skoðun, sem fram fer, hafa verið látin nægja til að greiða skoðunarmanninum laun hans. Þessi skoðunargjöld hafa aðeins verið greidd í hvert sinn, sem skoðun hefir farið fram. Nú er gert ráð fyrir, að aðalskoðunarmaðurinn fái kaup greitt úr ríkissjóði og að atvmrh. ákveði það, en hinsvegar sé sett gjaldskrá, er ákveði árleg gjöld af öllum vélum, til þess að standast kostnaðinn af skoðuninni, og eiga skoðunarmennirnir að fá nokkurn hluta af þessum skoðunargjöldum, en ekki að taka nein laun hjá ríkissjóði. Með þessu er tekið upp líkt fyrirkomulag og nú gildir um eftirlit með skipum og bátum. Það er einn yfirskoðunarmaður fyrir allt landið, en svo er landinu skipt í skoðunarumdæmi og sérstakur eftirlitsmaður í hverju umdæmi, sem ekki fær greidd laun úr ríkissjóði, heldur tekur hann fyrir störf sín af gjaldi því, sem eigendur skipa og báta greiða.

N. er sammála um það, að rökin, sem fram eru færð fyrir frv., séu svo mikilvæg, að rétt sé, að frv. verði að l., og leggur því til, að það verði samþ. óbreytt.