04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þegar sett voru í alþýðutryggingal. ákvæði um upphæðir bóta vegna slysa og styrkja vegna elli og örorku, var miðað við annað ástand í landinu en nú er orðið. Sérstaklega var, þegar ellilaun og örorkubætur voru ákveðnar, miðað við, að lagt væri til það lægsta, sem hugsanlegt væri, að gamalt fólk og öryrkjar gætu dregið fram lífið með.

Það er svo, að í reglum, sem settar hafa verið af Tryggingarstofnun ríkisins, eru ellilaun og örorkubætur mismunandi eftir því, hvar er á landinu. Í Reykjavik er gert ráð fyrir 900 kr., í kaupstöðum utan Reykjavíkur 800 kr., í kauptúnum með yfir 300 íbúa 720 kr. og í sveitum 600 kr. Að vísu hefir þetta verið þannig í framkvæmdinni, að kaupstaðirnir hafa lagt fram meira fé á móti framlagi tryggingarstofnunarinnar til að tryggja framfærslu ellihrumra manna og öryrkja, og til þess að hækka ellilaunin upp í það, sem Ljóst var, að fólk þyrfti til að geta dregið fram lífið. Þannig munu t.d. ellilaun í 2. flokki vera 25–50 kr. á mánuði, eftir aðstöðu fólksins, sem fær þau.

Af þessum ástæðum og því, að nú hefir verið breytt með löggjöf kaupgjaldi verkafólks í landinu og lögákveðin hækkun þess eftir ákveðnum reglum, og þar sem nú mun svo til stofnað, að fyrir þingið verði lagðar í einhverri mynd till. um uppbót til opinberra starfsmanna á laun þeirra, en óvíst, hvernig þær ná fram að ganga á Alþingi, virðist óhjákvæmilegt að leggja til að veita uppbót á ellilaunum og örorkubótum, og auk þess slysabótum, bæði af þeim ástæðum, sem ég gat um í upphafi máis míns, að allar þessar bætur eru miðaðar við þann tíma. er dýrtíð var miklu minni, og þetta var þá talið það minnsta hugsanlega, sem þetta fólk gæti komizt af með án þess að leita frekari opinbers styrks. Það er vegna þessa, sem ég hefi staðið að því, að þetta frv. er flutt hér, og hefir hv. fjhn. þessarar d. tekið að sér að koma málinu út í d.

1. gr. frv. er um uppbætur á slysabætur. Er það sameiginlegt með 1. og 2. gr., að ætlazt er til, að ellilaun og örorkubætur og slysabætur hækki á árinu 1940 um allt það, sem kauplagsn. telur verð hækka, og um leið og hún ákveður verðlagsbreytingar, sem er 4 sinnum á ári. Með þessu móti hækka þessi fjárframlög meira en kaup verkamanna, og er það miðað við það, að framfærslueyrir þessara manna sé svo lágur, að hvað sem versnar í ári, þá verði hann þeim ekki nægur, og ekkert upp á að hlaupa fyrir vaxandi dýrtíð fyrir þetta fólk yfirleitt. Þess vegna er lagt til, að uppbæturnar verði látnar fara eftir verðvísitölu þeirri, sem kauplagsnefnd reiknar út.

1. gr. er, eins og áður er sagt, um slysabætur, og er lagt til, að þær hækki 4 sinnum á árinu 1940, eftir þeim reglum. sem ég hefi getið um hér á undan. Slysabætur eru samkv. alþýðutryggingal., eins og kunnugt er 5 kr. í dagpeninga á dag, og auk þess fá þeir, sem fyrir slysunum verða, ókeypis læknishjálp og 3/4 lyfjakostnaðar. Örorkubætur eru 6 þús. og dánarbætur 3 þús. kr., auk 100 kr. á hvert barn þeirra eftirlifandi aðstandenda, sem hafa misst fyrirvinnu sína. Það er lagt til í 1. gr., að þessar bætur verði hækkaðar eins og ég hefi áður skýrt frá. Þessar bætur eru allar lögákveðnar í slysatryggingabálki alþýðutryggingalaganna, en þótt l. verði breytt, leggjast engin aukin fjárframlög á ríkissjóð, því í lögunum stendur, að heimilt sé með reglugerð að hækka fjárframlög atvinnurekenda — iðgjöldin —, svo það eitt nægi til að halda uppi greiðslu á uppbótum samkv. frv. Það myndi ekki þurfa annað en að breyta reglugerðinni um iðgjaldagreiðslur atvinnurekenda.

2. gr. fjallar um ellilaun og örorkubætur. Er ætlazt til, að þau hækki eftir sömu reglum og slysabæturnar. Þar gegnir að vísu nokkuð öðru máli, því ellilaun og örorkubætur eru greidd af opinberum sjóðum, ríkissjóði og bæjar- og sveitarsjóðum. Mundi því þurfa hærra framlag frá ríkissjóði til lífeyrissjóðs Íslands til að standast þessar hækkuðu greiðslur frá tryggingarstofnun ríkisins. Ekki er hægt að áætla með neinni vissu, hve miklu það muni nema fyrir ríkissjóð, en ef gengið væri út frá því, að meðalhækkun á verðlagi árið 1940 yrði 15%, myndi þetta verða um 45 þús. kr. aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, því að sé reiknað með því, að framlag ríkissjóðs í þessu skyni er nú 300 þús. kr., þá eru 15% af því 45 þús. kr. Í 3. gr. frv. segir, að ríkissjóði beri að endurgreiða lífeyrissjóði Íslands þá fjárhæð, sem stafa myndi af því, að 2. gr. frv. væri samþ.

Mér finnst það engum vafa undirorpið, að eftir að búið er af hálfu löggjafarvaldsins að gera ráðstafanir til að hækka laun manna yfirleitt í landinu, bæði með núgildandi l. um hækkun kaups alls verkafólks, faglærðs og ófaglærðs, og þegar svo kaup opinberra starfsmanna verður hækkað — en ekki getur annað komið til mála en svo verði gert, — þá geti ekki heldur annað komið til mála en að hækka þær greiðslur, sem um getur í frumvarpinu, um ekki minna en það, sem nemur vaxandi dýrtíð á árinu 1940.

Ég vildi mega vænta, að hæstv. Alþingi líti ágreiningslaust á þetta mál og verði vel við því, sem lagt er til í frv., því það er vissulega ekki minna réttlætismál en að tryggja öðrum launþegum í landinu uppbót á laun sín.

Vil ég mæla eindregið með því, að frv. nái sem fyrst fram að ganga á Alþingi.