16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

Pétur Halldórsson:

Mér fannst hv. frsm. aldrei gera nægilegan mun á því, sem heitir uppbót á kaup verkamanna, og þeirri uppbót, sem hér er lagt til að veita á slysabætur, örorkubætur og ellilaun. Honum ætti að skiljast það, að því hærra sem kaupið er, því meiri líkur eru til þess, að þeim stundunum fækki, sem verkamaðurinn hefir vinnu, svo að tæplega er gerandi ráð fyrir, að hann hafi meira upp úr sér. Nú er tiltekin hækkun á verkakaupi heimiluð með lögum. En hér er lagt til að hækka framlag, sem rýrnar ekki, a.m.k. ekki af neinum sambærilegum orsökum; þessar bætur eru örugg greiðsla. Á þeim og kaupi er því grundvallarmunur, sem verður til þess að rugla allan samanburð. Að hinu leytinu er margt fólk, sem þannig er sett í þjóðfélaginu, að það getur ekki á nokkurn hátt varið sig gegn dýrtíðinni með eigin ráðstöfunum né annara. Aldrei geta allir þegnar þjóðfélagsins fengið uppbætur á dýrtíðinni. Það er ekki nokkur vissa fyrir því, að hið hækkaða kaup verði nokkur dýrtíðaruppbót, ef atvinna minnkar vegna þess. Þetta frv. rennir að flestu leyti blint í sjóinn. Ég lít svo á, að sé farið að bæta upp dýrtíðina, verði að gera það, hversu mikil sem hún verður. Það dugir ekki að bæta upp árið 1940 og hætta við að bæta upp 1941 af því, að þá verði dýrtíðin orðin meiri. Það verður að fylgja „principinu“. taka afleiðingunum af stefnu þessa frv., hverjar sem þær verða.

Hv. frsm. sagði, að sveitarfélögin væru alveg sjáifráð um að velja eða hafna. Hann virtist gera ráð fyrir, að þau betur stæðu mundu þiggja „fríðindin“, þau ættu að treysta sér til þess. Ég er hræddur um, að fæst þeirra geti lagt mikið fram af eigin fé. Heldur væri það hitt, að sveitar- og bæjarfélög, sem svo eru komin, að hætt er að hugsa til að reisa við fjárhaginn, reyni að játast undir skyldurnar í von um fríðindin, sem kynnu að færa þeim eða íbúum þeirra hagnað. Það eru ekki alltaf þeir bezt stæðu, sem flottastir eru og örlátastir, og því er nú komið sem komið er.

Nú vildi ég spyrja, hvort það sé ætlazt til þess í frv., að dýrtíðin sé uppbætt að fullu. Sumum hefir dottið í hug, að uppbótin kynni að fara eftir sama hlutfalli og kaupuppbótin, þó að orðalag frv. bendi raunar til hins. Það mætti vera skýrara.

Þó að tilgangur frv. sé náttúrlega góður. verða menn að athuga, hversu lítið gagn, en mikið ógagn getur af því orðið.