16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það yrði of langt mál að fara út í það, hvort þessi og önnur félagsmálalöggjöf, sem sett hefir verið hér á landi, hafi gefizt vel eða illa. Mér skildist það vera aðalatriðið fyrir hv. 4. þm. Reykv. að andmæla slíkri umbótastarfsemi yfirleitt og nota þetta mál sem kærkomið tækifæri til þess. Það mun því verða nú sem oftar, að ekki þýði að reyna að sannfæra hann, þegar slíkur grundvallarstefnumunur er milli okkar sem nú er.

Hv. frsm. er búinn að skýra ákvæði 1. gr., þar sem ræðir um uppbætur slysatryggðra manna, og upplýsa það, að óhjákvæmilegt mundi að hækka iðgjöld, þótt þetta frv. hefði ekki komið til. Eins og hv. 4. þm. Reykv. veit, þegar hann gætir betur að, eru slysatryggingar byggðar hér upp, eins og almennt erlendis, með iðgjöldum af hálfu atvinnurekenda þeirra, sem reka tryggingarskylda atvinnu, og iðgjöldin misjöfn eftir því, hver áhætta er talin fylgja henni. Það er ríkjandi regla, að sá, sem hefir hagsmunina, eigi að bera áhættuna. Þetta er engin nýlunda hér, búið að vera í lögum síðan 1925, og viðurkennt, hélt ég, að það geti ekki öðruvísi verið.

Út af seinni gr. vil ég taka fram strax, að það ætti ekki að geta risið nokkur misskilningur um það, að frv. ætlast til, að heimila sé að greiða uppbót sem svarar allri dýrtíðinni, miðað við vísitölu kauplagsnefndar. Frv. segir þetta ótvírætt, og ég tók það enda fram við 1. umr. Þá færði ég rök fyrir því, að þess væri engin vanþörf, og sé ekki ástæðu til að endurtaka þau. Þessu fólki, sem fæst hefir aðrar tekjur eða upp á nokkuð að hlaupa, er skammtað niður að sultartakmarki. Aftur má segja, að kaupgjald sé þeim mun hærra, að faglærðir menn, a.m.k. í stöðugri vinnu, geti haft einhvern afgang frá daglegum heimilisþörfum til að mæta óhöppum, og það er hreint ekki sanngjarnt né sjálfsagt, að kaupgjald eigi að skammta niður að sultartakmarki, þótt kaupgjaldshugleiðingar háttv. þm. Reykvíkinga stefndu að því marki. Þá má alls ekkert á bjáta, svo að ekki berji fullkomin neyð að dyrum.

Það er ljóst, að til þess að öll bæjarfélög geti notað sér fríðindi þessa frv., veitti ekki af, að þeim væri séð fyrir möguleikum til tekjuaukningar. Hvernig það tekst, get ég fátt sagt um enn. Ríkisstj. hefir falið milliþinganefnd í skatta- og tollamálum að athuga það og koma með tillögur. Hverjar þær verða og hversu miklar tekjur þær kunni að færa bæjar- og sveitarfélögum, verður ekki rætt um að svo stöddu, en ég vil vænta alls góðs af nefndinni. Það er ómögulegt að láta afgreiðslu þessa máis bíða eftir því, og raunar ástæðulaust.

Enn er tvennt, sem ég vildi drepa á í sambandi við ræðu hv. 4. þm. Reykv. Sé ekki veitt þessi uppbót á styrkina, fer það svo, að fólkið, sem á þeim hefir bjargazt, getur ekki lifað án sveitarstyrks til viðbótar. Sá framfærslueyrir dregur hið opinbera ekkert minna, en allir vita, hvert böl það er, ef slíkur fjöldi fólks er neyddur til þess án verðskuldunar að gefa sig þannig upp á náðir bæjar- eða sveitarfélagsins. Ég álít, að bæjar- og sveitarfélögum sé meira en lítill greiði gerður með þessu frv., ef að lögum verður, því að mikið af því, sem greitt verður í uppbætur á styrki með þátttöku ríkissjóðs, hlyti ella að greiðast sem fátækrastyrkur. Þó að hluti lífeyrissjóðs í þessum styrkjum muni nú ekki nema meira en um 26% þeirra, munar yms bæjar- og sveitarfélög verulega um þá upphæðina. Af þessum ástæðum er ákaflega kynlegt og engan veginn rétt, þegar talað er um, að með frv. eigi að lokka bæjar- og sveitarfélög til að taka á sig óþarfa byrðar og steypa fjárhag þeirra.

Ég álít það ekki rétt, að hækkun kaupgjalds dragi yfirleitt mjög úr atvinnu, nema þá sem snöggvast, og sízt á slíkum tímum sem nú eru. Sú kauphækkun, sem nú hefir verið lögboðin, gerir það vissulega ekki. Ég hygg, að hjá öllum verkamönnum í stöðugri vinnu og miklum hluta annara verkamanna verði hrein tekjuaukning nokkurn veginn sem þessari litlu kauphækkun nemur, og að samanburður við þá geti ekki orðið rök gegn þessu frv. — Fleiri almennar aths. læt ég hjá líða að sinni.