16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

*Haraldur Guðmundsson:

Mér skildist á hv. 4. þm. Reykv., að ef frv. ætti að ná samþykki, yrði að byrja á því að afla bæjar- og sveitarsjóðum tekna til að standast byrðar slíkrar löggjafar. Þetta er alger misskilningur, eins og hv. þm. ætti að vera ljóst af ræðum hæstv. félmrh. og hv. frsm. Hv. þm. er það vel kunnugt, að dýrtíðin hefir aukizt svo stórkostlega síðan í október, að upphæð, sem þá var úthlutað úr lífeyrissjóði, hlýtur að vera alls ófullnægjandi nú.

Þá er að minni hyggju ekki nema tvennt til, annaðhvort að styrkþegar fari flestra hluta á mis, ég vil segja líði skort, eða í öðru falli leiti til sveitarfélagsins um framfærslustyrk til viðbótar. T.d. hér í Reykjavík hafa þeir, sem njóta styrks í 2. flokki, 200–900 kr.

Mjög verulegur hluti af þessu fólki, a.m.k. þeir, sem hafa hærri upphæðirnar, hafa þennan eina framfærslueyri, og margt af því var áður beinlínis á framfæri bæjarins. Það, sem farið er fram á með þessu frv., er, að ríkissjóður greiði sinn hluta þeirrar hækkunar, sem fram kemur samkv. vísitölu kauplagsnefndar.

Þegar þess er gætt, að Alþ. þótti ástæða til þess að lögbjóða kauphækkun hjá öllum þorra verkalýðsins og að fyrir Alþ. liggur frv. um hækkun á launum starfsmanna hins opinbera, þá liggur í augum uppi, að því fólki, sem skammtaðar eru langlægstu upphæðirnar, er ákaflega nauðsynlegt að fá einhverja uppbót.

Hv. þm. sagði, að með þessu væri verið að lokka sveitarfélögin til þess að óþörfu að leggja fram fé í þessu skyni. Ég verð að segja, að mig undrar á þessu. Í fyrsta lagi er það eins og hv. þm. tók fram, að sveitarfélögum er það í sjálfsvald sett, hvort þau nota sér þetta, og komist fólk af án þessarar hækkunar, þá geri ég ekki ráð fyrir, að til þess komi. En ef ekki væri farin þessi leið, þá geri ég ráð fyrir, að það mundi koma fram í auknum framfærslukostnaði. Hv. þm. taldi það mjög hæpið, hvort löggjöfin um lífeyrissjóð Íslands væri heppileg, nema þvert á móti. Ég verð að játa, að mér er ekki vel ljóst, hvað hv. þm. átti við með þessu. Hitt er aftur á móti rétt hjá hv. þm., að framlag lífeyrissjóðs hefir heldur lækkað í hlutfalli við framlag bæjar- og sveitarfélaga. Árið 1936 var framlag tryggingarstofnunarinnar í 2. flokki 70% á móti framlagi bæjar- og sveitarfélaga, en á yfirstandandi ári nálægt 35%. Mér fannst hv. þm. vera óánægður með, að svona skyldi hafa gengið, að hlutfallið skyldi hafa lækkað frá því á fyrsta ári, þegar i. voru í gildi. Ég vildi þess vegna vekja athygli hv. þm. á því, af hverju þetta stafar.

Í fyrsta lagi það, að bæjar- og sveitarfélög nota sér þessi 1. og telja þau mikinn feng, sem kemur fram í því, að laun gamalmenna og örorkubætur samkvæmt alþýðutryggingarl. eru ekki lengur skoðuð sem framfærslustyrkur, heldur greidd sem ellilaun. Af þeim sökum verður framlag bæjar- og sveitarfélaga hlutfallslega hærra en áður. Það er líka komið svo, að það eru fá dæmi þess, að fólk, sem komið er á þann aldur að hafa rétt til ellilauna, eða svo á sig komið, að það hafi rétt til örorkustyrks, sé beinlínis á framfæri sveitarfélagsins. Langmestur hluti af því fólki, sem nýtur styrks í 2. fl., myndi að öðrum kosti gera beinlínis á framfæri sinnar sveitar eða kaupstaðar. Einmitt þetta sýnir, að bæjar- og sveitarfélögin kunna að meta þessa styrki og að þau vilja heldur leggja þetta fé fram sem örorkubætur en fátækrastyrk, eins og áður var.

Að því er snertir 1. gr. frv., þá hefir talizt nauðsynlegt að hækka dagpeninga og örorkubætur, og er því óhjákvæmilegt að hækka iðgjöldin, enda er það beinlínis tekið fram í grg. Þetta frv. er samið með það fyrir augum, að bætur þessar hækki um sömu hundraðstölu og vísitala kauplagsnefndar hækkar um (sbr. l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi).

Það segir sig sjálft. að þar sem l. ekki gilda nema eitt ár, verður tækifæri til þess á næsta þingi að bæta úr, ef einhverjar misfellur yrðu á frv.

Ég vil svo vænta þess, að hv. þm. verði sammála um það, að þessar greiðslur beri að bæta upp, með tilliti til dýrtíðarinnar í landinu.