16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það hefði verið fullkomin ástæða til þess að fara út í rökræður við hv. 4. þm. Reykv., en þó ætla ég að neita mér um það. Þó vil ég víkja að þessari brtt., sem hann hefir borið fram við frv. Mér virðist þessi brtt. hvorttveggja í senn, óþörf og óréttlát, — óþörf fyrir þá sök, að það er ekkert annað í gr. frv., sem fyrirskipar sveitarfélögunum að hækka ellilaunin um 100% af dýrtíðaruppbót vísitölunnar, nema skilja eigi gr. svo, að sveitarfélögunum dytti í hug að leggja fram af sinni hálfu einhvern hluta af því, sem aukin dýrtíð veldur. Það virðist eðlilegt, að bæjar- og sveitarfélögin leggi fram hlutfallslega á móti lífeyrissjóði eftir þeim reglum, sem tryggingarstofnun ríkisins setur um þessi framlög, og er það allt að heimingi framlagsins. Leiðin er opin fyrir sveitarfélögin að fara niður úr þessu, vegna þess að framlagið takmarkast upp á við. Ef sveitarfélögin vildu hækka styrkinn sem nemur dýrtíðinni, stendur til boða á móti lífeyrissjóðsframlag. Ég leyfi mér að vísa til þeirra röksemda, sem áður hafa verið fluttar fram, að víða hafi verið svo naumt skammtað, að full þörf sé á uppbót. Það kann að vera rétt, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að í sumum bæjar- og sveitarfélögum séu ellilaun á þann veg, að þar sé eitthvað upp á að hlaupa fyrir vaxandi dýrtíð, en víðast mun þó ástandið þannig, að full þörf sé á einhverjum styrk til viðbótar.