26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Hv. allshn. segist koma til móts við það, sem ég hefi farið fram á með brtt. á þskj. 157. Hún vill orða þennan hluta 2. gr. á nýjan hátt, svo að gr. verði þannig í framkvæmdinni, að þau sveitarfélög, sem ákveða að greiða dýrtíðaruppbót á svokölluðum örorkubótum og ellilaunum, fá sama hundraðshluta, miðað við framlag ríkissjóðs eins og það var áður, á móti dýrtíðaruppbótinni, sem sveitarfélagið greiðir. Hverju þessar upphæðir nema, fer eftir því, hvað sveitarfélagið treystir sér til að bæta miklu við örorkubæturnar og ellilaunin af sinni hálfu. Þetta er að vísu nokkuð breytt frá því, sem það var í frv., þegar það var lagt fram. Eftir því, sem þessi till. segir, þurfa sveitarfélögin ekki að greiða fulla dýrtíðaruppbót á ellilaun og örorkubætur til þess að fá eitthvert framlag hjá tryggingarstofnun ríkisins. Þessi brtt. n. nær ekki því, sem ég hefi hugsað mér með minni till. Hv. þm. munu vita, að framlag tryggingarstofnunarinnar á þessu ári móti framlagi sveitarfélaga var 25% til örorkubóta og ellilauna. Að vísu man ég ekki töluna með vissu, en má segja, að það hafi verið ¼. Ég lýsti því hér við 1. umr. málsins, að þetta fyrirkomulag hefði ekki reynzt heppilegt, að tryggingarstofnunin legði fram svo óvissan hluta af örorkubótum og ellilaunum eins og ákveðið er. Reynsla undanfarinna ára sýnir, hvernig þessu hefir verið farið og að hér þarf umbóta við. Ég hefi hugsað mér með minni brtt. að koma því til vegar, að ef sveitarfélögin vilja leggja sig í það að borga ½ hundraðshluta vísitölunnar, þá leggi ríkissjóður fram 100% af dýrtíðaruppbótinni. Þetta framlag sveitarsjóðanna er meiri upphæð heldur en það, sem tryggingarstofnun ríkisins leggur fram. Þess vegna verður að telja sanngjarnt, að ríkissjóður taki að sér að leggja fram móti sveitarfélögunum.

Ég verð því að halda fast við mína brtt. með þeirri skýringu, að ef sveitarfélögin legðu fram ½ hundraðshluta vísitölunnar, þá skuli ríkissjóður leggja á móti að fullu skv. þessari frv.gr. Þó að þessi till. nái fram að ganga, verður framlag ríkissjóðs til þessara mála allt í allt ekkert meira. Mér skildist svo við 1. umr., að ríkisstj. væri til með að verja 45 þús. kr. til uppbótarinnar á ellilaunum og örorkustyrk. En mér finnst ástæðulaust að setja skilyrði fyrir þessu framlagi af hálfu ríkisvaldsins. Það verður nógu erfitt fyrir sveitarfélögin að uppfylla þær kröfur, sem frv. annars fer fram á.

Ég treysti því, að hv. þm. fallist á, að ekki sé réttlátt að neyða sveitarfélögin til að leggja meira fram en tryggingarstofnun ríkisins til ellilauna og örorkubóta, heldur sé ætlazt til, að ríkið leggi fram í þessu skyni 45 þús. kr. eftir þeim fyrirmælum, sem eru í minni brtt.