26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Við 2. umr. þessa máls gat ég þess, að ekki væri það óeðlileg skýring á 2. gr. frv., þar sem rætt er um uppbót á ellilaunum og örorkubótum, að framlag lífeyrissjóðs fari eftir því, hvað sveitarfélögin hefðu að leggja á móti. Til þess að taka af öll tvímæli, hefir hv. allshn. flutt brtt. á þskj. 180, sem skýra þetta atriði. Samkv. frv. fer það eftir framlagi hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélaga til aukinna örorkubóta og ellilauna vegna dýrtíðar, hversu mikið framlag lífeyrissjóðs sé. Hin brtt. n., um að l. gangi í gildi strax, er réttlát og eðlileg. Það væri óeðlilegt, ef l. öðluðust ekki gildi fyrr en 12 vikum eftir að þau væru staðfest, og því er sú breyting til bóta.

Vegna brtt. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 157 læt ég nægja að vísa til ummæla hv. þm. N.-Ísf. hvað hana snerti. Ég held, að ef slík brtt. yrði samþ., væru þessi fyrirmæli l. óframkvæmanleg. Jafnvel þó að hv. 4. þm. Reykv. hafi gefið í sinni ræðu sínar skýringar, þá er það svo, að bókstafurinn stendur. Og bókstafur l. er á þá lund, að það kæmi ekki til neinna uppbóta. Ég vil því skora á hv. 4. þm. Reykv. að taka aftur þessa brtt., því að það er áreiðanlega ekki tilætlun hans að eyðileggja þessa lagasmíð eða skemma hana með því að setja inn í hana þennan hortitt, og til lítils sóma yrði það fyrir þingið að afgr. hana á þá lund.

Að öðru leyti þarf ég ekki að svara því, sem fram hefir komið um þetta mál. Ég vil þó benda hv. 4. þm. Reykv. á, þar sem hann ætlast til þess, að lífeyrissjóður leggi fram helming á móti bæjar- og sveitarfélögum, að það þyrfti að gera víðtækar breyt. á alþýðutryggingarl. til þess að það yrði framkvæmanlegt, og næðist þá ekki tilgangur sá, sem hv. þm. vildi vera láta.

Út af brtt. hv. þm. V.-Húnv. get ég líka látið nægja að vísa til þess, sem tekið hefir verið fram í umr. um frv. hér í hv. d. af okkur, sem mælt höfum með því, og hv. þm. N.-Ísf. líka kom fram með í sinni ræðu, að það er grundvallarhugsunin í þessu frv., að þeir, sem þiggja þessar bætur, séu svo lakar settir heldur en jafnvel verkamenn á lægstu launum, að þeir megi ekki við þeirri raunverulegu tekjulækkun nokkuð frá því, sem verið hefir. Þess vegna er ætlazt til, að dýrtíðaruppbót sé full á þessar bætur.

Í annan stað vil ég leyfa mér að benda á út af ræðu hv. þm. V.-Húnv., að það er ekki alveg nákvæmlega rétt, að hækkun launabóta sé ¾, sem verkamenn geta fengið, því að samkv. gengisl. frá síðasta þingi er það 80%, þegar dýrtíðin er komin visst ákveðið upp, og þá gætu slysabætur orðið lægri eftir till. þm. V.-Húnv. heldur en jafnvel verkamenn fá ofan á sitt kaup. Þess vegna álit ég lítið réttlæti mæla með þeirri brtt., og verð því fyrir mitt leyti að mæla gegn því, að hún nái fram að ganga.