02.04.1940
Efri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Þetta mál kom frá hv. Nd. og var flutt af allshn. þeirrar d. Allshn. þessarar hv. d. hefir haft þetta mál til athugunar og komizt að þeirri niðurstöðu að mæla með því eins og það liggur fyrir frá hv. Nd.

Efni frv. er í aðalatriðum það, að heimilt sé að veita uppbætur samkv. gildandi l. á dagpeninga, örorkubætur og dánarbætur til slysatryggðra manna eða eftirlifandi skylduliðs þeirra samkv. gengisl., og um 2. gr. frv. er það að segja, að þar er farið fram á að veita samskonar hundraðshluta og vísitala kauplagsn. segir til um á hverjum tíma til þeirra, sem taka styrk úr lífeyrissjóði Íslands.

Um fyrri gr. er það að segja, að það er sjóður tryggingarinnar, sem þessi uppbót kemur til með að mæða á, en hann er nú orðinn allstór eftir okkar mælikvarða, en ef hann hrekkur ekki til, þá stendur opin sú leið til að auka tekjur hans að hækka nokkuð iðgjöld þau, sem honum ber 1. samkvæmt.

Um lífeyrissjóðinn er það að segja, að þar ber ríkissjóði að koma til skjalanna með það framlag, sem þetta hefir í för með sér. Það er gert ráð fyrir, að upphæð sú, sem lífeyrissjóður þarf að greiða út, muni nema árlega röskum 300 þús. kr., og ef reiknað er með vísitölunni, sem nú gildir, sem sé 9%, þá má fljótlega sjá, að þetta er ekki allveruleg upphæð, eða milli 40 og 50 þús. kr., sem hér er um að ræða. Í sambandi við þetta má geta þess, að því aðeins er ríkinu skylt að leggja fram þessa upphæð, ef sveitar- og bæjarfélögin vilja leggja hana fram að sínum hluta og hækka sínar upphæðir samkv. þessum reglum, sem hér um ræðir. En ef eitthvert bæjar- eða sveitarfélag vill ekki bæta upp það, sem það greiðir, þá kemur ekki heldur til kasta ríkisins að greiða á móti, svo það er allt í óvissu, hve ríkið muni þurfa að leggja þarna fram mikið fé. En það orkar ekki tvímælis, að allir þeir, sem taka lífeyri sinn frá slysatryggingunni, eða fá á þann hátt lífeyri að meira eða minna leyti, hafa oft ekki annað sér til framfæris en þá peninga, sem tryggingin veitir þeim, og sama má segja um þá, sem einungis hafa það, sem lífeyrissjóðurinn leggur þeim til; það mun hrökkva skammt, eins og nú háttar verðlagi hér í landi. Það er ekki nema sanngirniskrafa, að þessar upphæðir séu hækkaðar á sama hátt og þegar hefir verið gert með allt kaupgjald í landinu, og nú liggja fyrir Alþingi till. um að hækka laun opinberra starfsmanna. Þessa skoðun hefir allshn. fallizt á og mælir með því, að frv. nái fram að ganga eins og það liggur fyrir.