29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

61. mál, umferðarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Frv. það, sem hér er flutt, hefir áður komið fyrir hv. deild, fyrir tveimur til þrem árum síðan. Það var þá undirbúið af lögreglustjóra og vegamálastjóra í sameiningu og síðan yfirfarið af hæstaréttardómara.

Í frv. þessu eru nokkur ákvæði, sem reynslan hefir sýnt, að nauðsynlegt er að setja í lög. Um þau er ekki deilt. En meginatriði í þessu frv. er, að lagt er til, að við tökum upp hægri handar akstur, í stað þess að við höfum nú vinstri handar akstur. Hefir verið talsvert um þetta deilt í Nd., þótt það hafi náð fram að ganga, og sömuleiðis hefir mikið verið um þetta mál rætt undanfarið utan Alþingis. Tilefni til þess að frv. er flutt og gert er ráð fyrir þessum breyt. í umferðarreglunum, er það, að þróunin hefir gengið í þá átt, að þar, sem vinstri handar umferð hefir verið lögákveðin, hefir þessu verið breytt í hægri handar akstur. Á sjó og í lofti gilda samskonar alþjóða umferðarreglur, og er nú unnið að því að samræma umferðarreglur á landi á sama hátt. Nú eru þrjú lönd, auk Íslands, sem ennþá hafa vinstri handar akstur, það eru Svíþjóð, Ungverjaland og Stóra-Bretland. En lönd, sem nýlega hafa breytt til og tekið upp hægri handar akstur, eru Ítalía, Portúgal, Kanada og nokkur fleiri, sem ég man ekki í svipinn. Nú eru líkur til þess, að einnig í Svíþjóð verði breytt til, því að nýlega hefir verið sett n. þar til þess að taka mál þetta til athugunar og undirbúa löggjöf í þessu efni, og þótt ekki hafi enn verið tekin bein ákvörðun um breyt., er talið, að þessi nefndarskipun þýði raunverulega það, að umferðarreglunum verði breytt. Sama er talið, að verði gert í Ungverjalandi. Hitt þykir aftur á móti líklegra, að Bretar muni ekki fyrst um sinn breyta til hjá sér.

Árið 1935 ritaði þáverandi atvmrh. vegamálastjóra bréf og fól honum að athuga þetta mál og undirbúa. Þar sem þróunin hefir gengið í þá átt, að hægri handar umferðin hefir orðið ofan á, og það kostar ekki mjög mikið nú að gera þær breyt., sem með þarf, virðist sjálfsagt að breyta um nú, ef það á annað borð verður gert. Vegamálastjóri telur, að kostnaður við nauðsynlegar breyt. muni nema um 30 þús. kr., og eru það aðallega breyt. á dyrum á stórum vögnum og ef til vill á stýrisumbúnaði þeirra.

Annað, sem rekur á eftir, að þessar breyt. verði gerðar nú, er það, að vegna þess að stöðugt hefir verið um þetta rætt síðan 1935, hefir enn ekki verið hafizt handa um kennslu í umferðarreglum í skólum. Hefir ekki þótt taka því fyrr en sýnt yrði, hvort vinstri handar umferðin héldist áfram eða breytt yrði til. Þetta tvennt, kostnaðarhliðin og kennsla í skólum, sem upp þarf að taka hið fyrsta, rekur á eftir, að breyt. verði gerð nú þegar, ef á annað borð verður horfið að því ráði. Hvort sem um hægri handar eða vinstri handar umferð er að ræða, er öryggið jafnmikið.

Þá er sú breyting gerð jafnframt, að gangandi menn gangi vinstra megin á vegi, þannig að þeir hafi ökutækin á móti sér. Höfum við rekið okkur á, að 3–4 stórslys og jafnvel 3 dauðsföll hafa orðið vegna þess, að við höfum ekki þessa reglu. Þegar ekið er á eftir gangandi manni, er ákaflega erfitt fyrir þann, sem ökutækinu stjórnar, að vita, hvort sá, sem á undan er, hefir orðið ökutækisins var, og er þá alltaf sú hætta, að hann gangi inn á veginn. Það mætti auðvitað taka upp þessa reglu, þótt vinstri handar umferð haldist, og láta þá gangandi vegfarendur ganga eftir hægri brún vegarins, svo að þessi breyt. er ekki nein rök því til stuðnings að skipta um umferðarreglur hvað akstur snertir.

Þó að það megi segja, að vinstri handar og hægri handar umferð séu jafnöruggar, mælir það með þessari breyt., að ýmsir fara með bifreiðar sínar til útlanda, þó að það skipti ef til vill ekki miklu máli, erlendir ferðamenn koma einnig hingað með sínar bifreiðar, og loks sérstaklega, að þegar svo er komið, að hægri handar umferð er að verða alþjóðaregla, má búast við því, að erfitt verði að fá hingað sæmileg ökutæki, sem sniðin eru eftir vinstri handar umferð. Eins og sakir standa getum við fengið vinstri handar ökutæki í Danmörku, því að þar eru framleidd ökutæki fyrir Svíþjóð og hin önnur Norðurlönd. Sama máli gegnir um erfiðleika að því er snertir alla tækni í umferð, leiðbeiningar o. þ. h., sem sniðið er eftir hægri handar reglunni sem allar líkur benda til, að verði jafnalþjóðleg og metrakerfið, sem Englendingar hafa að vísu ekki tekið upp heldur.

Það, sem menn einkum færa sem rök á móti þessari breyt., er, að slysahættan muni aukast. Í Austurríki og Tékkóslóvakíu, en þessi lönd tóku upp hægri handar akstur áður en þau voru innlimuð í þýzka ríkið, hefir reynslan sýnt, að slysum fjölgaði ekki, ekki einu sinni næstu daga eftir að breyt. komst í framkvæmd, enda eru menn fljótir að átta sig á slíkum breyt. og falla fljótt inn í umferðarkerfið, hvað svo sem það er.

Þessar upplýsingar hefi ég frá þeim manni,

sem stóð fyrir breyt. í Austurríki. Var hann fenginn til Svíþjóðar til þess að halda fyrirlestra og veita nefnd þeirri, er ég gat um áðan, upplýsingar um, hvernig þetta hafi gefizt í Austurríki. Hann segir í skýrslu sinni, að breyt. hafi ekki valdið neinum vandræðum.

Það, sem einkum hefir dregið úr því, að þessar breyt. væru gerðar í Svíþjóð, er kostnaðurinn. Fyrir tveim árum var talið, að kostnaður vegna breyt. myndi nema um 14 millj. kr., en er nú áætlaður 15 millj. kr. Þannig getur kostnaðurinn einnig aukizt hér frá ári til árs. Hefði ófriðurinn ekki skollið á, myndum við nú ef til vill hafa rafknúna vagna milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Var meira að segja búið að sækja um leyfi til þess að starfrækja rafknúna vagna á þessari leið. Þar sem jafnauðveldlega er hægt að koma rafknúnum vögnum á og hér, verður ódýrara að nota raforkuna en benzín, enda mun þess varla langt að bíða, að rafknúnir vagnar komi hér á ýmsa vegi. Verði sú umferð bundin í vinstri handar kerfi, en síðar horfið að því ráði að skipta um, hlýtur sú breyting að hafa ærinn kostnað í för með sér. Þannig getur kostnaðurinn vaxið með hverju árinu. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, enda eru upplýsingar í grg. allýtarlegar. Vil ég mælast til þess, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og samgmn., og óska eftir, að hún kalli vegamálastjóra á sinn fund, því að hann hefir miklu ýtarlegri upplýsingar um málið en unnt var að koma fyrir í grg.