03.04.1940
Efri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

61. mál, umferðarlög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! N. hefir athugað þetta frv. og fengið á sinn fund vegamálastjóra, varaformann Þróttar og formann Hreyfils til viðtals. Vegamálastjóri mælir ákveðið og eindregið með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Ég hefi haft tal af formanni Þróttar, og virtist hann heldur á móti málinu, og varaformaður félagsins, Jón Guðlaugsson, er mætti á fundi n., er á móti því, að frv. verði samþ. Málið hefir verið rætt á fundi í félaginu, þar sem voru mættir 40–50 vöruflutningabílstjórar, og þar varð það ofan á að mæla frekar á móti frv., og það aðallega vegna þess, að það hefði svo mikinn kostnað í för með sér, og að slysahættan myndi aukast vegna hinnar breyttu umferðar, en hún gæti aftur orðið til þess, að iðgjöld á bílatryggingum hækkuðu.

Á fundi Hreyfils hafði málinu aftur á móti verið lítið hreyft, því að fáir menn voru á fundi, eða innan við 20 af öllum þeim bílstjórum, sem aka mannflutningabifreiðum. Þeir, sem töluðu þar, voru líka heldur á móti málinu. Þeir töldu óþarft að breyta til, en þeir voru ekki eins harðir á því eins og manni virtist vöruflutningabílstjórarnir vera.

Veganmálastjóri leit þannig á, að það væri yfirleitt að færast í það horf, að breytt væri frá vinstri handar akstri og yfir í hægri handar akstur. Hann benti á, að ef menn hugsuðu sér að gera þessa breyt., þá væri einmitt rétti tíminn til þess að gera hana nú. Það væru ekki tiltakanlega margir bílar, sem þyrfti að breyta. Það væru strætisvagnarnir, sem eru 30 að tölu, en breyt. á hverjum þeirra myndi kosta um 1600 kr., þar sem þarf bæði að breyta stýrisútbúnaði og dyraútbúnaði, en ekki nema 1100 kr., ef aðeins þarf að breyta dyraútbúnaði. Það er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði helming kostnaðar við þetta. Langferðabílarnir eru fleiri, eða 60–70, en það er ekki talin brýn þörf á, að þeir breyti þessum útbúnaði, eins og nú standa sakir; þeir eru fljótir að ganga úr sér. Bílstjórar þeir, sem voru hjá okkur í gær, héldu því fram, að þeir entust 8 ár, en því hefir áður verið baldið fram í mín eyru, að þeir entust ekki lengur en í 4 ár, og að á þeim tíma yrði að afskrifa kaupverð þeirra. Ég veit nú ekki, hvoru maður á heldur að trúa, en það er víst, að þeir endast ekki lengi. Þeir ganga fljótt úr sér og þeir verða þess vegna endurnýjaðir smám saman, og það er því ekki þörf á að breyta þeim öllum.

Vegamálastjóri benti ennfremur á, að hér á landi hefði ekki verið lögð sérstök vinna í það að kenna fólki umferðarreglur, og ekki væri hægt að ganga að því með neinni alvöru fyrr en vitað væri, hvor reglan yrði tekin upp. Hann taldi það þess vegna mikils virði fyrir framtíðina að fá því slegið föstu, að við ætluðum okkur að vera í samræmi við það, sem almennast er annarstaðar, sem sé hægri handar keyrslu. Hann taldi það mikilsvert að reyna að koma því inn í meðvitund þjóðarinnar, hvernig hún eigi að haga sér á götum og gatnamótum, og heppilegast að gera það á meðan umferðin kemst niður í lágmark, eins og búast má við, að verði í sumar. Það væri því nú hinn hentugasti tími til að taka upp hægri handar akstur, en með hverju árinu sem liði og fleiri og fleiri bílar kæmu inn í landið, byggðir fyrir vinstri handar akstur, og sérstaklega ef ráðizt væri í stærri fyrirtæki, eins og t. d. rafmagnsvagna milli Hafnarfjarðar og Rvíkur, þá yrði það erfiðara og dýrara að breyta til heldur en ef það væri gert nú.

Vegamálastjóri mælir þess vegna eindregið með því, að frv. verði samþ. og hallazt verði að hægri handar akstri. Á þessi rök vegamálastjóra, sem eru í andstöðu við skoðun Þróttar, féllst meiri hl. n., og leggur hann til, að frv. verði samþ. og eins það mál, sem er þessu nátengt og er mest á dagskránni, frv. til bifreiðalaga.

Einn nm. gat ekki fallizt á rök vegamálastjóra og leggur því til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem hann leggur til, að gerð verði á því, og hann mun mæla fyrir.