03.04.1940
Efri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

61. mál, umferðarlög

*Árni Jónsson:

Hv. frsm. samgmn. hefir nú gert grein fyrir máli sínu og hefir í aðalatriðum farið rétt með það, sem hann sagði. Vegamálastjóri kom á fund n., og það er rétt eftir haft, að hann mælti eindregið með því, að frv. væri samþ. nú. Ennfremur komu á fund n. varaformaður Þróttar og formaður Hreyfils. Mér skildist á hv. frsm., að hann vildi gera lítið úr andmælum þeirra gegn frv. eða því, hvort taka ætti upp hægri handar akstur eða halda vinstri handar akstri eins og nú er. Ég skildi báða þessa menn svo, að þeir legðu eindregið til, að haldið væri við það, sem nú er, og bentu þeir í því sambandi á hinn mikla og tilfinnanlega aukakostnað, sem af því leiddi, ef farið væri að breyta til í þessu atriði. Mér skildist, að þeir töluðu ekki einungis fyrir sinn eiginn munn og þeirra félaga, sem þeir voru fyrir, heldur fyrir munn stéttarinnar, sem þetta mál snertir mest, bílstjórastéttarinnar.

Ég hefi ekki getað sannfærzt af rökum þeim, sem vegamálastjóri hefir haldið fram, né því, sem hv. frsm. hefir sagt bæði fyrr og nú um þetta. Það er rétt, að hægri handar akstur er að ryðja sér til rúms víðast hvar í álfunni, en það er þó eitt land, sem er undanskilið, og það er Bretland. Það er vafalaust röng skýring, að Bretar haldi vinstri akstrinum af íhaldssemi, heldur mun þeirra vinstri akstur stafa af því, að þeir þurfa ekki að taka upp hægri handar akstur, vegna þess að land þeirra er eyland. Það er annað þar, sem löndin liggja saman.

Í grg. frv. er beinlínis sagt, að það séu ekki aðrar ástæður til að taka upp hægri handar umferð en þær, að þetta sé að verða alþjóðaregla. Því hefir ekki verið haldið fram, að hægri umferð hafi neina kosti fram yfir vinstri umferð. Það er bent á það í grg., að það geti verið rétt að taka upp hægri umferð vegna aðsóknar útlendinga, þar sem í flestum löndum sé hægri umferð. Það má nú benda á, að mikið af þeim útlendingum, sem hingað koma, kemur frá Bretlandi, en þar er vinstri handar umferð. Ennfremur má á það benda, þar sem talað hefir verið um, að það geti verið til óhagræðis fyrir Íslendinga, sem fara til útlanda, að vera vanir vinstri handar umferð, að til er vitnisburður eins manns í samgmn. um það atriði. Hv. þm. S.-Þ. á sæti í samgmn., og hann sagði okkur frá því, að hans vinstri akstur hefði ekki orðið honum til neins baga, þegar hann var með bíl erlendis. Hann hefði undir eins áttað sig á umferðarreglunum, og hefi ég þó aldrei heyrt, að hann væri sérstaklega snjall bílstjóri. (JJ: Þetta bendir þó til þess). Það, sem hér er um að ræða, er gífurlega aukinn kostnaður. Það liggur fyrir áætlun um kostnaðinn við að breyta almenningsbílunum, en það eru líkur til, að hann muni eftir núverandi verðlagi nema 2000 kr. á bíl. Það mun einnig vera svo um bodybíla, að mikill kostnaður stafi af þessu. Það er rétt, að ríkið á að greiða helming þessa kostnaðar.

Ég álít, að það sé ekkert annað en misskilin nýjungagirni að vera að taka þetta upp. Það tryggir ekkert. Það er engum til hagræðis, og engum til óhagræðis, sem hingað kemur, þótt vinstri akstri sé haldið. Ég er sannfærður um, að þetta er gersamlega óþarft, og því engin ástæða til að samþ. það.

Till. mínar á þskj. 315 eru að vísu 6 að tölu, en það veltur allt á því, hvort sú fyrstu verður samþ. eða ekki. Hinar till. eru afleiðing af henni. Ég tel einnig, að till. á þskj. 317 eigi að fara sömu leið og þær.

Ég treysti því, að hv. þm. sjái, að það er alveg út í bláinn að vera að samþ. þetta. Ég get bent á það, að Englendingar, sem hafa vinstri handar keyrslu, eru allra manna víðförlastir, og þeim dettur ekki í hug að breyta þessu heima hjá sér af þeim ástæðum.

Ég sé ekki, að þau rök, sem fram hafa komið, hafi við neitt að styðjast. Hér er aðeins verið að apa eftir öðrum, en af því leiðir óþarfa kostnað, sem við höfum ekkert leyfi til að kasta okkur út í að óþörfu.