26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

60. mál, bifreiðalög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég sé, að það eru komnar hér fram brtt. við þetta frv. til bifreiðalaga frá hv. þm. Mýr. og 6. þm. Reykv., sem gera ráð fyrir því, að breytt verði aftur þeim umferðarreglum, sem frv. gerir ráð fyrir, sem sagt, að vinstri akstri verði haldið. Og eftir því, hvernig þessar brtt. verða afgr., virðist mér muni fara með ákvæðin, sem eru í sjálfu frv. til umferðarlaga.

Ég hefi fært hér fram áður nokkur rök fyrir því, að það sé eðlilegt, að þessi breyting verði gerð. Skal ég ekki endurtaka mikið af þeim rökum. En rökin eru þau, að ýmsir ferðast héðan til útlanda og hafa með sér bifreiðar, og ýmsir koma hingað frá útlöndum með bifreiðar sínar. Það er því þægilegra að hafa hér sömu umferðarreglur og aðrar þjóðir hafa. Og það stefnir að því að hafa sömu umferðarreglur á landi, í lofti og sjó. Og eftir þeirri þróun, sem gerzt hefir hér síðustu árin, er auðséð, að það er að verða almennari regla að halda hægri keyrslu. Þetta mál var athugað hér 1933 og 1934, eftir að alþjóðamót hafði verið haldið, og ákveðið, að hægri akstur yrði tekinn upp. Í samræmi við það skrifaði þáv. atvmrh., sem þá hafði fengið tilmæli um, að Ísland tæki upp hægri umferð, vegamálastjóra bréf, dags. 16/3 1935, og segir í lok þess bréfs. með leyfi hæstv. forseta: „Með tilliti til þess m. a., að nokkur kostnaður hlýtur að vera í sambandi við að gera slíka breytingu sem hér um ræðir (t. d. vegna breytinga á inn- og útgöngudyrum á almenningsbifreiðum o. fl.), og að sá kostnaður myndi sennilega vera því meiri sem lengur yrði dregið að gera breytinguna, vill ríkisstj. beina því til yðar, að þér látið athuga, í sambandi við endurskoðunina á bifreiðalögunum, hvort ekki muni vera heppilegra að taka upp regluna um að víkja til hægri.“ Og það er ekkert undarlegt, þó að þessi ráðstöfun væri þá þegar gerð, vegna þess að eins og ég hefi bent á, hlýtur að koma að því, að við tökum upp hægri akstur.

Og það er alveg víst, að það verður miklu dýrara síðar, en nú þarf ekki annað en breyta hurðum á nokkrum stórum vögnum, og er talið, að slíkt muni kosta nú um 30 þús. kr.

Ég hefi fengið skýrslur frá vegamálastjóra um það, hvar er hægri akstur, og er hann í Belgíu, Búlgaríu, Danmörku, Danzig, Estlandi, Finnlandi, Frakklandi, og er reyndar ekki þörf á að vera að lesa þau nöfn upp, þar sem utan Íslands er vinstri umferð í Norðurálfulöndum aðeins í Stóra-Bretlandi, Svíþjóð og Ungverjalandi, og

talið er víst, að mjög bráðlega verði horfið að hægri umferð í tveim síðasttöldu löndunum. En eins og við vitum, eru Englendingar mjög fastheldnir við gamlar venjur, og ekki taldar neinar líkur til þess nú, að þeir breyti til. Og nú síðustu árin hafa ýms lönd breytt til, sem áður höfðu vinstri umferð, svo sem Kanada, Finnland, Portúgal, ennfremur Spánn og Ítalía, en þar var vinstri, en sumpart hægri umferð. 1938 bættist Austurríki við, er það var innlimað í Þýzkaland, og loks Tékkóslóvakía 1939, en umferðarbreytingin hafði verið ákveðin þar áður en Þjóðverjar komu þar til sögunnar.

Í Svíþjóð hefir þetta verið ákaflega mikið rætt og athugað, og við höfum samkvæmt skýrslu vegamálastjóra fengið skýrslu um það, hvernig unnið hefir verið að þessum málum þar.

Í skýrslum, sem sendisveitin danska gaf utanríkismálaráðuneytinu danska og við fengum eftirrit af eftir okkar beiðni, er skýrt frá þessum málum, og segir þar, með leyfi hæstv. forseta: „Spörgsmaalet gav Anledning til en livlig Debat í begge Kamrene med overvældende Majoritet for Udvalgsforslaget. Selv om det kun drejede sig om en Henvisning af Sagen til Undersögelse, maa Beslutningen, som „Svenska Dagbladet“ udtrykker det i ledende Artikel í dets Nummer igaar, fremtræde som en principiel Beslutning i Spörgsmaalet om Trafikomlægningen.“

Þó að þessi n. hafi verið skipuð í málinu, verður að líta svo á sem ákvörðunin um það að skipa n. þessa þýddi það, að hún eigi að vinna að breytingum á ökureglum frá vinstri til hægri aksturs. Svo að í raun og veru er með þessari nefndarskipun í Svíþjóð búið að taka ákvörðun um það, að þessum reglum verði breytt. Spurningin er því fyrir okkur, hvort við eigum að vera með Stóra-Bretlandi, sem er ekki líklegt til þess að breyta þessu, og halda áfram reglunni um vinstri akstur. Því svara ég hiklaust neitandi.

Við vitum, að það hafa orðið ýmsar breyt. á öðrum sviðum, eins og á lengdarmáli og vog. En þar hafa Englendingar ekki fengizt til þess að breyta til þeirrar reglu, sem þó almennt ríkir, og það eru ekki taldar líkur til þess, að þeir fáist til þess, a. m. k. fyrst um sinn, að breyta þessum reglum, sem nú eru að verða almennar um allan heim. Og ég sé ekki ástæðu til þess að draga slíkar breytingar, þar sem þær kosta ekki nema 30 þús. kr. nú sem stendur.

Það hafa komið fram mótmæli í einu blaði bæjarins gegn þessari breytingu, sem eru byggð á því, að það sé óþarfi fyrir okkur að vera að apa þetta eftir öðrum þjóðum, en ef það væri orðið að alþjóðareglum, væri það annað mál, þó að við tækjum það upp. Sá, sem skrifar þetta, veit auðsjáanlega ekki, að hægri akstur er að verða að alþjóðareglu, þar sem samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég las upp áðan, eru það aðeins þrjú lönd, sem fylgja vinstri umferð, og tvö af þeim munu sennilega breyta um á næstunni.

Það eru ýmsir, sem álíta, að þetta muni auka slysahættu í bráðina, á meðan verið er að breyta þessu. En þar getum við líka stuðzt við þá reynslu, sem aðrar þjóðir hafa í þessum efnum, og sérstaklega núna síðan breytingin var gerð í Austurríki. Svíar gerðu fyrirspurn til þeirra manna í Austurríki, sem sáu um breyt. á umferðarreglunum, og fengu það svar, að niðurstaðan hefði orðið sú, að umferðarslysum hefði heldur fækkað heldur en hitt, miðað við það, sem áður var, m. a. af því, að svo mikið eftirlit var með umferðinni, um leið og breytingin var gerð. Það var gert ráð fyrir því, að kennsla í umferðarreglum verði í skólum. Og við verðum, til þess að bæta umferðarreglurnar, sem er nauðsynlegt fyrir okkur, að gera þessa breytingu sem allra fyrst, vegna þess að kostnaðurinn er lítill nú, en verður miklu meiri síðar. Ef taka á upp hér á landi kennslu í umferðarreglum, þá er það vitanlegt, að það er nauðsynlegt að halda uppi kennslu í þeim umferðarreglum, sem gilda eiga hér til frambúðar. Ennþá hefir ekki verið hafizt verulega handa um slíka kennslu, vegna þess að ekki hefir þótt taka því að halda uppi kennslu í umferðarreglum í skólunum, sem ef til vill verða numdar úr gildi. Einnig með tilliti til þessa eigum við að gera þetta strax. Ef þetta verður ekki gert nú, þýðir það, að þingið hefir tekið þá afstöðu, að halda vinstri akstrinum um ófyrirsjáanlegan tíma, hvaða breytingar sem kunna að verðu gerðar á þessu í öðrum löndum.

Ég hefði talið heppilegast, að frv. hefði verið samþ. án nokkurra breyt., því að ég tel svo sjálfsagt að breyta þessu nú, eftir að hafa athugað málið gaumgæfilega, og ég veit, að vegamálastjóri telur það sjálfsagt. Ég vil þess vegna eindregið mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt að þessu leyti. Það er ástæðulaust fyrir okkur að vera að halda uppi reglum, sem eru í ósamræmi við þær reglur, sem eru að verða alþjóðareglur, eingöngu vegna þess, að við höfum einu sinni notað söðla hér á þjóðvegunum.

Ég tel mig svo ekki þurfa að fjölyrða frekar um málið, en vænti þess, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.