26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

60. mál, bifreiðalög

*Haraldur Guðmundsson:

Það var að sjálfsögðu ekki ætlun mín, að bifreiðarstjórar ættu að hafa úrslitavald í þessum efnum, þegar Alþingi er að setja um þau l. En hinu vil ég halda fram, að það sé í alla staði eðlilegt, að þegar slík l. sem þessi eru sett, þá sé jafnfjölmennri stétt og bílstjórar eru gefinn kostur á að eiga tal við þær n., sem með málið fara, og láta sínar aths. koma þar fram. (GSv: Þeir hafa ekki farið fram á það). Um það er mér ekki kunnugt, en ég veit, að haldinn var fundur í bifreiðarstjórafélaginu og þar samþ. mótmæli gegn hægri akstrinum. Það er rétt hjá hv. þm., að það er enn tími til að koma aths. til þeirrar n. í hv. Ed., sem fær málið til meðferðar. — Hv. þm. sagði, að hann fyrir sitt leyti gæti fallizt á, að bráðabirgðaákvæði yrði sett í l. um, að hægri handar aksturinn tæki seinna gildi en l. sjálf. Mér er ekki ljóst gildi slíks ákvæðis, þar sem ástæðan til þess, að menn deila um, hvort taka skuli upp hægri handar akstur, er sú, hvort þá muni verða fleiri umferðarslys. Eftir því sem hv. þm. sagði um, að nú væri heppilegasti tíminn til að koma slíkri breyt. á, þá má segja, að á meðan benzínsala var bönnuð til allra einkabifreiða hefði verið heppilegasti tíminn til að byrja á hægri handar akstrinum, en eftir því sem ég bezt veit, þá er nú bann á benzínsölu til einkabifreiða úr gildi numið, svo að ég fæ ekki séð, að sumarmálin 1941 verði neitt heppilegri tími en aðrir, síður en svo, því að einkabifreiðar eru yfirleitt notaðar meira á sumrin en á veturna. Ég er alls ekki við því búinn að bera fram brtt. í þessu efni og sé ekki, að hún myndi tryggja það, sem ég hefi rætt um. Ég mun greiða atkv. um brtt. þær, sem hér liggja fyrir, og mun sætta mig við, að frv. fari til hv. Ed., en mun gera mitt til þess, að stéttarsamtök bifreiðarstjóra fái komið sínum till. til þeirrar n., sem fer með málið í hv. Ed.