05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1941

Skúli Guðmundsson:

Það hafa verið lagðar hér fram alimargar brtt. við fjárlfrv. Og flestar þeirra eru um auknar greiðslur úr ríkissjóði, en þó eru þar fáar undantekningar. vil ég minnast hér á brtt., sem ég hefi flutt á þskj. 308, við 14. gr. fjárlfrv., um launagreiðslur við Háskóla Íslands.

Ég veitti því eftirtekt, að í fjárlfrv. er gert ráð fyrir því, að launagreiðslur við háskólann á næsta ári verði 21 eða 22 þús. kr. hærri heldur en þær eru í fjári. yfirstandandi árs. Í þeim i. er gert ráð fyrir 99 þús. kr. til þeirra hluta. Nú liggur fyrir Alþ. frv. til 1. um verðlagsuppbót á laun starfsmanna ríkisins, og mér sýnist allt benda til þess, að það frv. verði að l. Þykir mér þá eðlilegast, að kennarar við Háskólann, eins og aðrir starfsmenn ríkisins, fái launabætur aðeins eftir þeim l., en ekki sérstakar launahækkanir þar fyrir utan, eins og nú standa sakir. Mér er ekki kunnugt um, að standi til að fjölga starfsmönnum við þessa stofnun, þannig að þessi rúmlega 20 þús. kr. hækkun, sem gert er ráð fyrir í frv., er vafalaust sett þar af hálfu hæstv. fjmrh. í því skyni að hækka laun kennaranna. En ég hefi ekki farið svo nákvæmlega gegnum fjárlagafrv., að ég hafi gert mér það ljóst, hvort þetta er eina till. um hækkun á launum opinberra starfsmanna ríkisins, sem í frv. felst. En þar sem þarna er um allverulega upphæð að ræða til hækkunar á gjöldum úr ríkissjóði, þá taldi ég ástæðu til að bera fram þessa brtt., svo úr því fengist skorið, hvort það væri vilji Alþ. að veita þessa aukalaunauppbót til þessara starfsmanna ríkisins um næstu áramót. En eins og ég þegar hefi tekið fram, tel ég það ástæðulaust, og vænti því, að þessi brtt. mín verði samþ. og þetta fært í sama horf og nú er í l.

Á sama þskj., 308,XXXIX, hefi ég einnig aðra brtt., við 16. gr., um 300 kr. styrk til Kvennasambands vestur-Húnavatnssýslu. Þetta kvennasamband er 20 ára gamalt á þessu ári. Það hefir beitt sér fyrir framgangi ýmissa nytsamlegra mála þar í héraðinu, t.d. heimilisiðnaðarmálum og garðrækt, og enn fleira mætti nefna af gagnlegum hlutum. Ég tel það því maklegt, að því sé veittur þessi styrkur, sérstaklega með tilliti til þess, að í fjárlagafrv. og á fjárl. undanfarið hefir staðið styrkur til margra slíkra félaga víðsvegar um landið. Get ég t.d. á það minnt, að í næstu sýslu er starfandi slíkt samband kvenfélaga, sem í nokkur ár hefir haft styrk eins og hér er farið fram á í minni till., að sambandið í Vestur-Húnavatnssýslu fái. vænti ég þess, að hv. þm. geti á þetta fallizt.

Þá vil ég minnast á brtt. á þskj. 333, sem er flutt af mér og hv. 1. þm. Skagf. Hún er við 15. gr. frv. og er um hækkun á fjárframlagi til flugmála um 10 þús. kr., í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 20 þús. kr. fjárveitingu til flugmála, en við leggjum til, að þessi upphæð verði hækkuð upp í 30 þús. kr. Með bréfi, dags. 19/12 1938, gaf atv.- og samgmrn. Flugfélagi Akureyrar fyrirheit um það, að rn. myndi leggja til við Alþ., að á fjárl. 1940 yrði tekið fjárframlag til félagsins að upphæð 10 þús. kr., fyrri greiðsla af tveimur. Þessu var fullnægt á síðasta þingi, þannig að þessi fjárhæð til Flugfélags Akureyrar var þá sett inn á fjárl. En þessi Brtt. frá mér og hv. 1. þm. Skagf., um 10 þús. kr. hækkun á fjárframlagi til flugmála, er borin fram með það fyrir augum, að uppfyllt verði að öllu leyti þetta fyrirheit rn. um fjárstyrkinn til flugfélagsins. Og þó að nokkur breyting hafi orðið á þessu félagi, teljum við fulla ástæðu til þess að veita því þennan styrk, sem rn. lofaði á sínum tíma að leggja til við hæstv. Alþ., að á fjárl. yrði tekinn. Hæstv. atvmrh. hefir gert þessa brtt. okkar að umtalsefni og mælt hið bezta með henni. Er ég honum þakklátur fyrir það og vænti þess fastlega, að brtt. verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð né heldur gera að umræðuefni fleiri brtt. við fjárlfrv., sem hér liggja fyrir.