27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

73. mál, dómkirkjan í Reykjavík og skipting Reykjavíkur í prestaköll

*Steingrímur Steinþórsson:

Þetta frv. er komið að því að verða afgr. út úr hv. d. Mér þykir það einkennilegt, að engar umr. hafa orðið um þetta mál, sem er ekki neitt smámál, að því er virðist. Hér er verið að binda ríkissjóði stóra fjárhagslega bagga, þar sem á að stofna nýjar kirkjur og mörg embætti í sambandi við þær.

Mér dettur ekki í hug að efast um nauðsyn þess að sjá Rvík fyrir nægum kirkjum og prestum, eins og öðrum landslýð, en af þeim kynnum, sem ég hefi af þeim hlutum í Rvík, virðist svo, að kirkjurnar séu sjaldan eða aldrei hálffullar, þegar messað er. Það virðist því ekki sýnileg þörf á, að gert sé ráð fyrir að reisa margar nýjar kirkjur þar í náinni framtíð af þeim ástæðum. Mér virðist því, að ástæða sé til, að þetta sé athugað nánar, þó það megi ekki skoða það sem svo, að ég sé að mæla gegn því að séð sé fyrir þörf Rvíkur í þessum efnum á skynsamlegan hátt eða eins og þörfin er á hverjum tíma.

Ég vil benda á, að hér er verið að leggja fjárhagslega bagga á ríkissjóð og stofna ný embætti í sambandi við þetta. Ég tel því ekki óeðlilegt, að þetta sé athugað öðruvísi en frá kirkjulegu sjónarmiði eða sjónarmiði menntmn., sem hefir flutt frv. Þó að það sé ekki vani að vísa frv. til annarar n., sem er flutt af n., þá hygg ég samt. að það sé fordæmi fyrir því. Ég vil því af þeim ástæðum, sem ég hefi nefnt, leyfa mér að gera það að till. minni, að málinu verði vísað til fjhn. með tilmælum um, að hún athugi það, áður en það er afgr. frá þessari hv. d. Ég verð að lýsa því yfir, að ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með frv. út úr hv. d. fyrr en það hefir fengið meiri athugun en enn hefir átt sér stað.