27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

73. mál, dómkirkjan í Reykjavík og skipting Reykjavíkur í prestaköll

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég þakka hv. þm. V.-Ísf. fyrir upplýsingar þær, sem hann hefir gefið um undirbúning þessa frv. Þær hafa þó ekki að neinu leyfi breytt afstöðu minni til þess atriðis, sem ég talaði um áðan.

Hv. þm. gat þess, að það myndu vera í undirbúningi till. frá biskupi landsins um fækkun presta hingað og þangað um landið eða einhverja fækkun með því móti að steypa prestaköllum saman. Mér þykir vænt um að heyra þetta. Ég hefi lengi litið svo á, að það myndi vera hægt að fækka prestum í landinu, og mér þykir vænt um að heyra, að stefnubreyt. muni hafa orðið í þessum efnum, því fyrir nokkrum árum mátti ekki heyra það nefnt að hrófla við prestakallaskipuninni. Ég vil spyrja, hvort það reki nokkur nauður til að gera þessa breyt. fyrr en þær till. koma. Mér virðist einmitt þær upplýsingar, sem hv. þm. V.-Ísf. gaf, benda í þá átt, að það mætti bíða með þessa nýskipun á prestaköllum í Rvík þangað til till. koma fram, sem stefna í þá átt að steypa saman fámennum prestaköllum úti um land.

Það er lagt til í þessu frv., að þessar 30 ára greiðslur ríkissjóðs hefjist árið l945. Ég verð að segja, að mér sýnist Alþ. með þessu vera að búa til álitlegan bandormslið. Það er vitað, hvernig gengið hefir með fjöldamargar lagasetningar á undanförnum árum, þar sem ríkissjóður hefir átt að inna af hendi ákveðnar greiðslur. Þær hafa verið greiddar 1–2 ár, en síðan hefir þeim verið hnýtt aftan í bandorminn. Ég hygg því, að það sé gefið, að þetta verði komið í bandorminn áður en fyrsta greiðsla á að fara fram, árið 1945. Það virðist næstum vera hlægilegt að setja ákvæði um fjárveitingu svona langt fram í tímann, þegar tillit er tekið til þess, hvernig þingið hefir farið með fjölda fjárframlaga, sem ákveðin hafa verið í l.

Ég held því fast við þá till., sem ég hefi borið fram áður, að þetta frv. fái betri athugun í hv. d. Það er a. m. k. víst, að ég greiði því ekki atkv. út úr hv. d. nema það fái betri athugun.