27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

73. mál, dómkirkjan í Reykjavík og skipting Reykjavíkur í prestaköll

*Gísli Sveinsson:

Ég hélt ekki, að ég þyrfti á þessu stigi málsins að biðja um orðið til að deila við hv. þdm. um svo einföld atriði sem hér er um að ræða. Hv. þm. N.-Þ. kvað sér vera þetta mál undrunarefni. Hann er að vísu nýkominn í d., en það er sannarlega engin afsökun, þegar hér er á ferðinni jafnalþekkt mál. Þetta frv. er grundvöllur að alveg því sama og legið hefir fyrir þinginu áður um að afhenda dómkirkjuna til safnaðarins og skipta Reykjavík í prestaköll, svo að hv. þm. ætti að vera kunnugt um það. Við hefðum fyrir löngu átt að verða búnir að koma þessu máli í það horf, sem ætlazt er til með frv.

Ég vil geta þess, að mikill misskilningur kom fram hjá hv. 2. þm. Skagf., að málið þyrfti af sérstökum ástæðum að fara í gegnum tvær n. Eins og hv. frsm., þm. V.-Ísf., upplýsti, eru sérstök tildrög til, að málið var nú lagt fyrir þingið til skjótrar afgreiðslu. Enda þarf ekki annað en að lesa grg., svo að menn skilji nauðsyn þess, að frv. verði lögfest. Það er síður en svo þörf á, að fleiri n. fjalli um málið en menntmn., þar sem það hefir fengið alveg sérstaklega góðan undirbúning. Hinsvegar myndi ég ekki verða því mótfallinn, þó að önnur n. fengi málið til meðferðar að gamni sínu. Hún myndi ekki taka öðruvísi á því en menntmn., ef hún hefði áhuga og skilning á tilgangi þess.

Þegar hv. þm. rísa hér upp og segja, að kirkjur séu yfirleitt tómar og engan árangur hafi að hlynna að þeim, þá eru þeir að hafa eftir öðrum, án þess að geta fært rök fyrir máli sínu. Það kom greinilegast fram í ræðu hv. þm. N.-Þ., að hann er ekki kunnur kirkjum og kemur þar mjög sjaldan. Náttúrlega er hver sjálfráður að því, hve oft hann sækir kirkju, en það er siðferðisleg skylda hvers einstaklings að hlynna að þessum málum. Eftir því sem áhuginn er meiri fyrir kristindómnum, því meiri verður vakningin, sem má vel tala um í þessu sambandi. Það má ekki láta það, sem er eyðimörk, halda áfram að vera það, eins og sumum mönnum hættir til. Þó að einhverjar kirkjur úti um land stæðu tómar, eru það engin rök fyrir því, að ekki vanti kirkju í Reykjavík. Enda er tímafrekt að gera gangskör að þessu, og má kalla það þjóðarnauðsyn. Mundi margt betur fara, ef kostur væri á að gera meira fyrir þessi mál en gert hefir verið.

Það er misskilningur, sem kom fram hjá hv. þm., að ríkið ætti ekki að leggja fram fé til kirkna. Þar sem þjóðkirkja er í þessu landi, ber ríkinu skylda til að styrkja hana og vernda. Hv. þm. hafa allir unnið eið að stjórnarskránni og er ekki ókunnugt um, hvað þeir hafa þar tekizt á hendur. Vanræksla í þessum efnum kemur í bága við starf þeirra sem umboðsmanna þjóðarinnar. Hv. þm. N.-Þ. kvað óþarfa að byggja fleiri kirkjur hér í bænum, og kom með þau rök fyrir skoðun sinni, að hann hefði aldrei þurft að snúa frá kirkju vegna þrengsla. En verði þessum málum komið í viðunandi horf, er ég alveg viss um, að hv. þm. myndi fá tækifæri til að sjá fulla kirkju. En það, sem hv. þm. N.-Þ. vitnar í borgir annara landa, get ég fullvissað hann um, að hann hefir ekki getað sjálfur séð það, og ég mótmæli því, ef hann ætlar að fara telja fólki trú um, að hann hafi greint það í borgum erlendis, hve margar kirkjur eru þar og hve mikil er kirkjusóknin, því að það er ekki á færi ókunnugra manna, sem nokkra daga dvelja í borgum erlendis, sem sumar eru stærri og aðrar minni, að rannsaka hvar eru kirkjur þar og hvernig með þær er farið. Ég vil leyfa mér að segja, að ólíklegt sé, að hv. þm. hafi nokkra hugmynd um það. Þeir, sem ferðast til þess að kynna sér þessi mál, komast að þeirri niðurstöðu, að kirkjuhús eru á miklu fleiri stöðum heldur en þeir í fyrstu gerðu sér hugmynd um, því að þau dyljast þangað til farið er sérstaklega að athuga það til þess fyrst og fremst að komast að því, hvar þau eru og hve mörg og hvernig þeim er þjónað og hvernig þau eru sótt. Menn, sem hafa farið beinlínis til þess að kynna sér þetta, hafa sagt, að það taki missiri að komast að raun um það, hvernig farið er kirkjumálum í stórborgunum. Þess vegna er ekki mikið leggjandi upp úr þessu, sem hv. þm. N.-Þ. talar um.

Hv. þm. sagði líka, að það væri ranglátt, að ríkið legði til kirkjur og til kirkjunnar í Reykjavík; Reykvíkingar gætu það sjálfir. En þessi hv. þm. hefði frekar átt að spyrja um þetta, og reyndar ætti hann að vita, að dómkirkjan í Reykjavík er ríkiskirkja, og ef framfylgt væri þeim reglum, sem þar að lúta, með kirkjuhald og eignir, þá ætti ríkið að byggja nægilegar kirkjur fyrir alla Reykjavík. Þess vegna hefði ríkið af sjálfsdáðum átt að vera búið að losa sig við þessa miklu kvöð fyrir löngu.

Nú er farið fram á það hér í þessu frv., að ríkið sé nú ekki með þetta handbendi, sem það aldrei sinnir til fullnægingar, því að slíkt myndi verða svo afskaplega kostnaðarsamt, þannig að það, sem farið er fram á í frv., er ekkert sambærilegt við það, því að þeir borgunarskilmálar, sem hér er farið fram á við ríkið, eru mjög vægir. Og ríkið ætti að geta innt þetta af hendi, í stað þess að leggja fram allar þær millj., sem það í raun og veru ætti að gera sem eigandi þjóðkirkjunnar. Álít ég, að það sleppi vel með þessu framlagi, að borga 300 þús. kr. þannig að borga 10 þús. kr. árlega á 30 árum, og þó, eins og stendur í frv., að greiðsla skuli byrja 1945. En þannig er það alstaðar, að þeir, sem eiga kirkjur, eru skuldugir til þess að halda þeim við og byggja upp. Þess vegna hefir það verið keppikefli nú um áratugi, meðan kirkjueigendur voru bændur, að reyna að losa sig við þær, því að það er ókleift fyrir slíka eigendur að byggja þær, en ekki að losa sig við þær stóru byrðar. Og ríkið sjálft hefir verið að þessu, þó að það sé spursmál, hvort það ætti ekki að standa að því sjálft að viðhalda dómkirkjunni.

En ríkinu hefir tekizt að losa sig við kirkjur, og hefir talið það kost að gefa fleiri tugi þús. kr. til þess að losa sig við kirkju fyrir 200 sálir, sem hafa svo tekið að sér kirkjuna.

Hér er því grundvallarmisskilningur á ferðinni, að ríkið eigi ekki að losa sig við það, sem er miklu kostnaðarsamara heldur en það, sem hér á að borgast.

En það er ekki nema hálfsögð sagan með þessu, því að þótt ríkið fái að losa sig við þetta, þá þurfa Reykvíkingar að leggja fram fleiri þús. kr. Þetta er gert til þess að t. d. prestar geti vakið áhuga á einstökum svæðum hjá mönnum til þess að byggja sínar eigin kirkjur.

Það hefir verið bent á réttilega sem andsvar við orðum hv. 2. þm. Skagf., að hér er ekki verið að tala um að binda neinn sérstakan bagga fram yfir það, sem nú er á ríkinu. Því að það er löglegt að hafa 4 presta á launum í Reykjavík, og þeir hafa verið það nú um tíma, fyrir ári eða svo, og þeir verða það.

Og það hefir verið talað um það sem hinn auðveldasta hlut, ef menn vildu fá þann kostnað upp borinn, sem hér er gert ráð fyrir, með því að sameina önnur prestaköll úti um landið; en það þarf ekki frá mínu sjónarmiði að tala um það í þessu sambandi, því að það er sjálfsagt, hvort sem frv. er samþ. eða ekki. Og það getur komið til mála á næstu tímum að sameina einhver af þeim prestaköllum, sem standa ár eftir ár laus og þar sem söfnuðirnir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé fullt svo heppilegt að sameina þau.

Hv. þm. N.-Þ. gat um eitt dæmi, sem hann áttaði sig ekki á frekar en þessu, hvers vegna ríkið ætti að borga til Akureyrarkirkju. En ríkið var skyldugt til þess að skila kirkjunni þeim eignum, sem það hafði sölsað undir sig. Þar var það ekki eins og hér er um að ræða, heldur aðeins hitt, að skila aftur nokkrum hluta af því, sem sannað er, að hafi horfið undan kirkjunni til ríkisins af hreinum eignum kirkjunnar á Akureyri.