27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

73. mál, dómkirkjan í Reykjavík og skipting Reykjavíkur í prestaköll

*Gísli Guðmundsson:

Það má nú vel vera, að það sé eitthvað til í því hjá hv. þm. V.-Sk., að ég sé ekki svo vel til þess fallinn sem æskilegt væri að ræða um kirkjumál. Og get ég gjarnan viðurkennt það, að mig skorti þar nokkuð á að geta rætt um málið af fullri þekkingu og skilningi. En það er nú svo, að hér á Alþ. verða þm. að taka ákvarðanir um marga hluti, þó að þeir séu ekki nema leikmenn á þeim sviðum. Og þrátt fyrir alla kirkjulega krafta hér á Alþingi, þá hefi ég talið, að ég hefði nú ástæðu til þess að leggja orð í belg, og vona, að það verði ekki tekið mjög illa upp af þeim, sem betur hafa vit á þessum málum en ég.

Ég er mjög ánægður yfir því að hv. þm. V.-Sk. skyldi koma hér fram með sína ýtarlegu ræðu áðan, vegna þess að hann er sýnilega mikill áhugamaður um þessi mál. Þess vegna má gera ráð fyrir því, þar sem hv. þm. er líka mikill málafylgjumaður og gætir vel þess málstaðar, sem hann hefir tekið að sér að vinna fyrir, að í hans ræðu hafi komið fram þau rök, sem hann hefir fyrir sér í þessu máli. Þess vegna má ég og aðrir, sem erum leikmenn í þessum sökum, vera ánægðir yfir að hafa fengið fram hans ræðu hér.

Ýmislegt af því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, var þess eðlis, að ég álít ekki stað hér til þess að ræða um það. Yfirleitt er ég ekki gjarn á að ræða mikið um trúmál; ég álít, að það sé bezt farið, að þau séu sem mest einkamál hvers manns og menn fari ekki með þau á stræti og gatnamót, heldur séu mest með þau í einrúmi. En það er alveg misskilningur hjá hv. þm. V.-Sk., ef hann heldur, að ég hafi engan áhuga á þessum málum. Það er þvert á móti, því ég hefi mikinn áhuga á þessum málum, þó að mér hafi ekki gefizt kostur á að sinna þeim. Og ég hefi nægilega mikið sótt kirkjur hér í Reykjavík til þess að geta sem sjónarvottur borið um það, að ég hefi ekki orðið var við, að það væri ákaflega áberandi, að menn þyrftu frá að hverfa við kirkjudyr.

Það er líka eðlilegt, því að hér kemur fleira til greina heldur en fólksfjölgunin ein. Hér hafa menn tækifæri til þess að sækja kirkjur á hverjum sunnudegi, og oftar en einu sinni á dag á hverjum helgidegi. En því er öðruvísi farið í strjálbýlinu.

Sömuleiðis er það svo, að þótt útvarpið sé

orðið útbreitt um landið, þá mun það hvergi vera jafnútbreitt eins og hér í Reykjavík. Og með því hafa menn eignazt ákaflega undursamlegt tæki til þess að geta notað sér þann boðskap, sem í kirkjunum er fluttur.

Ég vonast til þess, að það verði ekki lagt mér út til neins guðleysis eða virðingarleysis fyrir kirkjunni, þó að ég sé þeirrar skoðunar, að sú aðferð, að breiða út boðskap kirkjunnar gegnum útvarpið, komi fullkomlega að eins miklum notum eins og kirkjusókn; og ég álít, að hún komi að miklu betri notum. Skal ég svo ekki að öðru leyti ræða það frekar.

Ég vil því halda mig að því, sem ég hefi áður sagt, að þörfin á nýjum kirkjum hér í Reykjavík sé alls ekki eins mikil eins og sumir fylgjendur þessa máls vilja vera láta ... þá virðist mér þannig fyrir þessu séð, þó að ríkið þurfi ekki að leggja á sig neina aukna byrði í þessu efni. Og ég sé ekki, að nein brýn þörf sé á að fjölga kirkjunum, en ég viðurkenni fullkomlega, að ástæða sé til að fjölga hér prestunum.

Hitt atriðið er það, að enda þótt þörf væri á fleiri kirkjum hér, þá sé ég ekki annað en rétt væri, að þessi söfnuður, eins og aðrir söfnuðir, legði á sig byrðarnar, sem þarf til þess að koma upp kirkjum. Og það er næsta undarlegt í mínum augum, að á þessum tímum, þegar verið er að skera við nögl hér á Alþ. allskonar framlög til fullkomlega nauðsynlegra og óhjákvæmilegra bygginga, að vera þá með miklar ráðagerðir á prjónunum um annað eins og þetta. Ríkið hefir dregið úr sínu framlagi til endurbygginga í sveitum, og menn ættu að geta orðið sammála um það, að á öðrum byggingum er ekki eins mikil þörf eins og á endurbyggingu sveitabæja. Síðasta Alþ. gerði allmikinn niðurskurð á þessu fé og nú hefir komið mjög til orða á Alþ., sem nú situr, að lækka enn þessi framlög frá því, sem verið hefir. Á sama tíma geta menn verið að ræða um annað eins og það, að safna í sjóð til þess að byggja kirkjur í kaupstöðum landsins.

Ég get ekki fellt mig við þetta, og það má hver virða það á hvern veg, sem hann vill. En ég tel ekki samræmi í þessum gerðum Alþ. Og það eru kannske ekki kirkjubyggingarnar einar hér í okkar landi, sem ríkið virðist vera óþarflega örlátt á fé til, og mætti þar e. t. v. nefna fleiri byggingar, en þessar kirkjubyggingar eru sérstaklega til umr. hér nú.

Þetta er afaróviðfelldið, að á sama tíma, sem Alþ. þykist knúð til þess að draga úr lífsnauðsynlegum byggingarframkvæmdum, þá sé verið með slíkar ráðagerðir sem þessar.

Ég veit ekki, hvort viðeigandi er að minnast á það hér, en oft hefir mér dottið í hug í sambandi við þá nauðsyn að byggja dómkirkju hér í Reykjavík, að það hefir verið hafin fjársöfnun í landinu í því skyni að byggja slíka kirkju til minningar um einn af okkar miklu kirkjumönnum, sem er Hallgrímskirkja. Það var eitthvað byrjað á að reisa þetta hús í sumar á Hvalfjarðarströnd, og til þess mun vera búið að safna allmiklu fé. Ég myndi álíta, að það væri í betra samræmi við kirkjulegan áhuga að verja þessu fé til byggingar kirkju hér í Reykjavík, sem ætla má, að yrði betur sótt heldur en þarna í tiltölulega fámennri sókn, þar sem engar líkur eru til, að þessi stóra kirkja kæmi að verulegum notum.

Þarna er ein leið, sem benda mætti á, til þess að bæta úr þeirri þörf, sem Reykjavík kynni að vera á byggingu nýrrar kirkju.

Fleira mætti nefna, sem gæti komið til greina og mætti verða til þess að ríkissjóður þyrfti ekki að taka á sig þessa byrði, sem ég get ekki séð, að sé nein ástæða til eða réttlátt að hann taki á sig.