14.03.1940
Neðri deild: 17. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

23. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Frsm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti! Eftir að þessu máli hafði verið vísað til sjútvn., leitaði n. umsagnar Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Og að fengnum till. Samábyrgðarinnar samþ. n. að mæla með því, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem standa hér á þskj. 108, að aftan við 1. gr. bætist: en ávallt skal leita samþykkis Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, áður en skip, sem er yfir 150 smál. brúttó að stærð, er tekið í tryggingu, og skal ákveða iðgjöld fyrir þau í samráði við Samábyrgðina.“

Þetta þótti Samábyrgðinni öruggara, þar sem rýmkunin nær nokkuð langt út fyrir þau takmörk, sem nú eru í 3. gr. Þetta ákvæði nær þó aðeins til þeirra báta, sem eru umfram þá stærð, sem tiltekið er í gildandi heimild.

Eins og hv. d. veit, hefir komið fram önnur Brtt. frá hv. þm. Borgf. við 31. gr. frv., að í stað orðana „eitt ár“ komi: tvö ár — N. hefir athugað þetta, og álítur hún — og einnig er það álit Samábyrgðarinnar —, að þetta væri eðlileg og þörf breyt., og hefir því fyrir sitt leyti getað fallizt á þessa breyt. líka.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál, því að það á að liggja nokkuð ljóst fyrir með þessum orðum og því nál., sem fyrir liggur.