04.04.1940
Efri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

23. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Í raun og veru er ekki ástæða til að segja mikið um þetta litla frv. Það er gert ráð fyrir einni aðalbreyt. á l. um vátryggingu fyrir vélbáta, og er hún í því fólgin að heimila þessum félögum að taka báta til tryggingar, sem eru allt að 250 smálestir. Eins og vikið er að í nál., þá viðurkennir sjútvn. það rétta stefnu að vinna að því, að sem flest skip í fiskiflotanum verði tryggð í einu og sama vátryggingarfélagi. Hinsvegar eru þessi tryggingarfélög mjög ung og þeim komið á á þann hátt að lögleiða skyldutryggingu hjá öllum vélbátum. Af þessu hlýtur að leiða það, að þessi félagsskapur er mjög dreifður um allt landið, og hlýtur ennþá að vera nokkuð reynslulítill. Og má búast við, að misbrestur sé á, að menn geti haft fulla þekkingu og skilning á þessum málum. Þess vegna er það, að þó að n. leggi til, að þessar breyt. verði gerðar, finnur hún ástæðu til að taka fram, að hún lítur svo á, að velfarnaður tryggingarfélaganna velti afarmikið á því, að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sýni fullan skilning á þessum þrönga fjárhag félaganna. En reynslan hefir því miður orðið sú, þennan stutta tíma, sem þessi félög hafa starfað, að það hefir borið á því, að stj. Samábyrgðarinnar hefir ekki haft fullan skilning á því, að hér er með l. um bátatryggingarfélög verið að reisa við Samábyrgðina. Það hefir gengið svo með Samábyrgðina, að ástand hennar var orðið þannig, að félagið gat tæplega starfað. Þess vegna var þetta ráð tekið, að lögskipa að tryggja öll veiðiskip allt upp í 70 smál., og fyrirmæli sett um það, að hver verstöð skyldi vera sjálfstætt félag, sem skyldi vera skyldugt til þess að endurtryggja í Samábyrgðinni. Og með þessu var gert ráð fyrir því, að fengist trygging fyrir þeim grundvelli, sem Samábyrgðin verður eiginlega að byggjast á. Það hefir sem sé komið í ljós við reynslu Samábyrgðarinnar, að tjón á bátum, sem tryggðir voru þannig í Samábyrgðinni, var það mikið, að þó að iðgjöld hækkuðu um 8%, sýndi það sig, að hagur Samábyrgðarinnar fór sífellt versnandi. Nú hefir fengizt reynsla fyrir því hér á landi, að alveg sjálfstætt bátatryggingarfélag hefir blómgazt mjög vel þrátt fyrir það, þó að það hafi margfalt lægri iðgjöld heldur en Samábyrgðin þyrfti að taka. Þess vegna var það, að menn litu svo á, að það væri fólgin mikil trygging í því að stofna sjálfstæð félög, sem endurtryggðu í Samábyrgðinni, í sem flestum verstöðvum landsins.

Það er alveg ljóst, ef maður á að vænta þess, að þetta nái þeim árangri, sem maður gerði sér vonir um í fyrstu, að þá verður líka að gera þá kröfu til Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, að hún skilji, hvað hér er verið að vinna. Hún má ekki koma hér fram eins og „forretnings“-maður, sem hugsar aðeins um það, að fá nægilega mikil iðgjöld til þess að fyrirtækið geti staðizt. Hún verður að finna til þeirrar ábyrgðar, sem er í raun og veru sú, að leiða hin smærri félög. Og eins og ég drap á áðan, hefir því miður borið á því, að Samábyrgðina virðist hafa brostið skilning á þessu hlutverki sinu.

Þá er í nál. vikið nokkuð að því atriði og því beint til ríkisstj., að gæta þess fyrst og fremst, að þeim reglum sé fylgt, sem l. Samábyrgðarinnar mæla fyrir um, og þessi tryggingarfélög fái kost á því að kjósa annan stjórnandann í Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að þetta ætti að vera spor í áttina til þess, að sú samvinna, sem æskilegt væri, að væri á milli þessara aðila, gæti átt sér stað.

Nú er svo háttað, að fiskveiðasjóður á hagsmuna að gæta vegna starfsviðs síns um nálega hverja fleytu í Fiskveiðiflotanum, þannig lagað, að hann hefir lagt fram stofnlán, og ég fyrir mitt leyti lagði afarmikla áherzlu á, að þetta yrði gaumgæfilega athugað af hæstv. ríkisstj., því að mér er það ljóst, að ef svo fer, að þessi leið, sem valin var með því að stofna bátatryggingarfélögin, mistækist eitthvað ámóta og félag Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, þá er hér komið í stórt óefni. Og ég álít málið svo alvarlegt, að mér þykir miklu miður, að hæstv. ríkisstj. hefir ekki séð sér fært að vera við þessar umr. Hæstv. ríkisstj. hefir sjálfsagt talið málið svo lítilfjörlegt, að hún þyrfti ekki að gefa því mikinn gaum. En ég tel, að hér sé á ferðinni mál, sem snertir sjávarútveginn mjög mikið, einkum þann smærri. Og þó að þessi lagabreyt. út af fyrir sig sé lítið atriði, þá er málið sjálft í heild sinni þannig lagað, að áreiðanlega er tími til kominn, að því sé gefinn gaumur, svo að ekki fari nú þannig, að þessi vísir til trygginga, sem með bátatryggingarfélögunum hefir verið stofnaður, verði að engu og allt lendi í öngþveiti, eins og var áður en þessi tryggingarfélagsskapur var stofnaður. Því að það var ekki hægt að fá tryggingu fyrir sum tryggingarskyld fiskiskip, og sum ekki nema með þeim ókjörum, sem ekki var hægt við að una. En það hefir sýnt sig, að þessi bátatryggingarfélög, ef þeim er vel stjórnað, geta fært niður iðgjaldið um helming. Og miðað við fiskiskipaflota okkar, sem mun vera a. m. k. 260–270 skip, sem geta komizt undir þessi l., þá veltur ekki á litlu fyrir þá, sem eiga þennan flota og verða að tryggja hann árlega, að geta komið tryggingunni þannig fyrir, að iðgjöldin verði þeim ekki óbærileg, og auk þess, sem þeir með félagsskap tryggja það, að í framtíðinni verði hægt að fá enn betri kjör um tryggingar.

Ég vil sérstaklega benda á reynslu bátatryggingarfélagsins í Vestmannaeyjum, sem sannar okkur, að það er hægt að koma þessum tryggingum í gott horf, ef skilningur og þekking er til staðar. Það félag er orðið yfir 50 ára gamalt og getur nú veitt sínum viðskiptamönnum tryggingar fyrir svo lág iðgjöld, að við höfum aldrei þekkt slíkt annarstaðar. Og þó verðum við að játa, að Vestmannaeyjar er sú verstöð, sem ekki er hvað hættuminnst um tryggingar, heldur verður að telja hana með þeim verstöðvum hér á landi, sem hættulegastar eru.

Þær breyt., sem hér liggja fyrir á lögum um bátatryggingarfélög út af fyrir sig, gáfu ástæðu til þeirra aths., sem bæði komu fram í nál. og ég hefi nú sett fram við þessa umr.

Ég vænti þess, þó að hæstv. ríkisstj. hafi ekki hlustað á mál mitt, að þær bendingar, sem koma fram í nál., gefi henni tilefni til þess að athuga þetta mál. Og vil ég fyllilega treysta því, að hún sjái ástæðu til að taka að einhverju leyti til greina þær bendingar, sem öll sjútvn. Ed. hefir orðið sammála um.

Ég skal aðeins víkja að því, að það eru að vísu 2 smávægilegar breyt. við þetta frv. aðrar en ég hefi minnzt á, um það að hækka smálestatölu þeirra skipa, sem heimilt er að tryggja. Önnur breyt. er í raun og veru ekki nema orðabreyting. Breyt. á 6. gr. frv. er um það, að ef vafi leikur á því, hvar eigi að tryggja skipin, þá á Samábyrgðin að skera úr því. Þetta, var það, sem vakti fyrir þeim, sem fjölluðu um málið á sinni tíð, en Samábyrgðin hefir talið sér það alveg óviðkomandi.

Ég ætla svo að láta þetta nægja, í því trausti, að þær bendingar, sem n. hefir gefið, verði teknar til velviljaðrar athugunar hjá hæstv. ríkisstj.