27.03.1940
Efri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

90. mál, friðun arnar og vals

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Allshn., sem flutt hefir málið, hefir að sjálfsögðu ekki rætt það nánar á fundi. (BSt: Að sjálfsögðu?). Já, það stóð svo á, að málinu var rétt nýlega útbýtt, svo að ekki hefir unnizt tóm til þess. Málið er einfalt. Um það er að ræða, hvort gilda skuli áfram l. um friðun arnar. Ég hygg, að sú skoðun verði ofarlega á baugi, að örninn sé svo merkilegur fugl, að hann beri að friða. Mikil hætta er á því, að honum yrði útrýmt á skömmum tíma, ef farið yrði að leyfa að drepa hann. Það er alltaf erfitt að búa til löggjöf, þar sem hlutirnir eru stundum leyfðir og stundum ekki. Ég býst við, að ef leyft væri að drepa örn undir vissum kringumstæðum, þá myndu menn alltaf geta búið sér til yfirskinsástæðu. Hér var uppi hliðstætt mál á þingi fyrir nokkru, þar sem lagt var til, að leyft yrði að drepa álftir. Ýmislegt getur mælt með því, en Alþ. hefir þó ekki viljað fallast á þá skoðun, að leyfa beri að drepa jafnfríðan og skemmtilegan fugl, og mér kæmi ekki á óvart, þótt svipuð skoðun yrði ofan á að því er örninn snertir, þó að hann geri stundum nokkurt tjón. Annars býst ég við, að n. taki þessa till. til athugunar milli umr.