29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

90. mál, friðun arnar og vals

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Fyrri flm. brtt. á þskj. 253, hv. 1. þm. N.-M., gat þess, að allshn. Ed. hefði ekki viljað gera neinar breyt. á þessu frv., og var sú ástæða, að því er hv. flm. upplýsti, fyrir því, að hann bar þessar brtt. fram, að allshn. vildi ekki bera þær fram ásamt honum, eins og hann talaði um. Ég skal játa það, að þessi till. er mjög varfærnislega orðuð, og af henni gæti varla stafað hætta, þar sem það er á valdi lögreglustjóra í hvert sinn, hvort mönnum er heimilt að drepa örn eða ekki. Ég býst við, að reynslan hafi orðið sú, þegar örn hefir gert tjón í varplöndum eða drepið unglömb, að þá hafi friðundarl. hreint og beint ekki verið fylgt í öllum tilfellum, og það muni líka verða svo í framtíðinni. Þó að slíkt kæmi fyrir af þessum ástæðum, er ekki mikil hætta á, að menn yrðu látnir sæta sektum fyrir það.

Annars hefir mér verið skýrt svo frá af náttúrufróðum mönnum, að örninn verpi aldrei í varplandi, og mönnum, er þykjast þekkja vel til um hagi arnarins. Ef það skyldi vera rétt, þá lítur út fyrir, að það myndi ekki oft koma fyrir, að örn gerði tjón í varplandi, og þess vegna væri rétt, að brtt. á þskj. 253 yrði samþ., enda þótt allshn. þætti ástæðulaust að bera fram brtt. um það efni.

Aftur á móti vil ég segja nokkur orð um síðari brtt. á þskj. 253, því að ég er mótfallnari henni en hinni fyrri. Ég vil skjóta því atriði til þeirra manna, sem málfróðir eru, hvort „arna“ sé ekki réttara en „arnar“. Mér skilst, að myndin „arna“ eigi þar að vera, og ég vil heyra álit hinna málfróðu manna hér í d. um það, hvort svo muni vera.