30.03.1940
Efri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

90. mál, friðun arnar og vals

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Enda þótt mér þyki þessi breyt. sízt til bóta, sem sé að ganga alveg framhjá viðkomandi lögreglustjóra, sem hefir staðarkunnugleika í þessum málum og viðkomandi maður getur oftast náð fljóti til, en láta í þess stað slík mál fara til ráðh. hér í Reykjavík, sem enga kunnugleika hefir í þessum málum, þá mun ég sætta mig við, að hún verði samþ., frekar en að sætta mig við það, að brtt. á þskj. 253 verði felld. En ég bendi n. á það, að þetta má kalla að koma aftan að manni, því að þegar farið var fram á það við mig í gær, að ég tæki till. mína aftur til 3. umr., gerði ég það í þeirri von, að samkomulag næðist um till., og mér hefði þótt sanngjarnt að leggja til, að lögreglustjóri ætti að veita slíka heimild í samráði við ráðh. En eftir brtt. á þskj. 268 er ekki ætlazt til þess, að lögreglustjóri komi neitt nálægt þessum málum, heldur á ráðh. einn að úrskurða þar um samkv. bréflegum upplýsingum, og slíkur úrskurður kemur ekki fyrr en eftir dúk og disk til viðkomandi manns. Ég tel, að þessu frv. hafi verið breytt hjá allshn. til hins verra frá því, er ég tók brtt. mína aftur.