30.03.1940
Efri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

90. mál, friðun arnar og vals

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég skil ekki í þeirri óánægju, sem kemur fram hjá hv. 1. þm. N.-M. út af þessu. Ég varð ekki annars var en að hann væri sammála hv. 11. landsk., þegar hann kom með þá till., að úrskurðarvaldið í þessum efnum skyldi vera í höndum ráðh. Enda sé ég ekki muninn á þessari till. og till. hans, því að þótt ekki sé minnzt á lögreglustjóra í brtt. á þskj. 268, þá hlýtur ráðh. eðlilega að leita umsagnar viðkomandi lögreglustjóra og fara eftir till. hans í flestum tilfellum. Vitaskuld mun sá maður, sem fyrir búsifjum verður af þessum sökum, snúa sér til viðkomandi lögreglustjóra, og hann sækir um heimild frá ráðh. Ég get ekki skilið óánægju hv. 1. þm. N.-M. út af því, að ráðh. fái vald til að gefa endanlegan úrskurð í þessum málum, og ég skil ekki í öðru en að þessi hv. þm. sætti sig við það. Svo skal ég ekki fjölyrða frekar um þetta.