03.04.1940
Neðri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

90. mál, friðun arnar og vals

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Þetta mál hefir verið til athugunar í allshn., sem hefir orðið ásátt um að mæla með því, að ernir séu friðaðir. En hún gerði þá breyt. á frv., að þar komi einnig ákvæði um friðun valsins. Þessi fugl hefir verið þjóðarstolt, ef svo mætti að orði kveða. Hann var friðaður þar til 1930, og eftir því sem ég hefi fengið upplýsingar um, þá hefir síðan verið eytt mjög miklu af þessum fugli, sérstaklega ungum hans og eggjum. Mér skilst, að ekki muni stafa sú hætta af þessum fugli, að rétt sé að koma í veg fyrir útrýmingu hans í tæka tíð. Þess vegna væri æskilegt að friða valinn þann tíma, sem frv. ákveður um friðun arnar. N. hefir einnig breytt ákvæði 2. gr. á þá leið, að ef valur eða örn verpi í friðlýstu varplandi, þá sé ráðherra heimilt að gera ráðstafanir til að verjast tjóni af völdum þeirra.