03.04.1940
Neðri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

90. mál, friðun arnar og vals

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Ég er hv. allshn. þakklátur fyrir, að hún hefir tekið upp í frv. þetta ákvæði um friðun fálkans. Þegar ég kom á þing fyrir 3 árum, gerði ég einmitt fyrirspurn um það, hvað liði friðunarmálum fugla. Ég fékk þær upplýsingar, að almenn friðunarlög væru á döfinni. En ég mundi fá alveg sama svar nú og fyrir 3 árum, að enn væru í undirbúningi friðunarlög fyrir fuglalíf landsins.

En úr því að hér er komið fram í frv.-formi friðunarákvæði um örninn, fannst mér líka rétt að skjóta inn í ákvæði um friðun valsins. Mér er kunnugt um það, að einmitt valnum fækkar mjög ört á síðari árum. Þar, sem ég þekki til á Norðurlandi, hefir honum fækkað óvanalega mikið á síðustu 10 árum, og er einkum ungaráni um að kenna. Fálkaungum hefir verið rænt og þeir til skamms tíma verið seldir til útlanda. Auk þess hefir mönnum leyfzt að veiða lifandi fálka, og ekki eru nema 2 ár síðan Þýzkaland sendi hingað leiðangur til þess að veiða lifandi fálka. Þetta er þjóðfugl Íslendinga, og ekki lítið metnaðarmál fyrir okkur, að þessi merkilega fuglategund fái að hafa einhverja möguleika til að lifa. Þess vegna er ég þakklátur hv. allshn., að hún hefir tekið þetta ákvæði upp í frv., og mæli hið bezta með því.