18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

74. mál, verðlag

*Finnur Jónsson:

Þetta frv. er sjálfsagt að ýmsu leyti til bóta, en mér virðist þó 9. gr. geta verið að ýmsu leyti varhugaverð, þar sem heimilað virðist vera að leggja framvegis á vörur sama hundraðshluta og fyrir 1. sept. 1939. En síðan hafa vörur hækkað mjög í verði, og því hlýtur álagning, sem nemur sama hundraðshluta, að færa þeim, er með vörurnar verzla, meiri ágóða en áður. Það er viðurkennd nauðsyn að halda vöruverðinu niðri. Það hafa verið samþ. l. um, að ekki megi hækka kaup nema í samræmi við aukningu dýrtíðar, eða tæplega það, og því er óeðlilegt að leyfa kaupmönnum og heildsölum að leggja á vörur sínar sama hundraðshluta og áður. Vera má, að fyrsti málsl. 9. gr. dragi nokkuð úr þessu, en það er ekki nógu skýrt, sem þar er sagt. Vil ég skjóta því til hæstv. viðskmrh. að taka þetta ákvæði til athugunar. Hann mun vera mér sammála um það, að ekki er rétt, þegar verið er að reyna að koma í veg fyrir dýrtíðaraukningu, að leyfa að leggja á vörur sama hundraðshluta og áður, þegar verð þeirra er sjálft hækkað um mörg hundruð prósent.