01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

74. mál, verðlag

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Það var tekið fram í grg. frv. og lýst yfir í framsögu við 1. umr., að allshn. mundi athuga frv., en ekki hefir orðið úr því, að nál. yrði skilað, þangað til nú, við 3. umr., að brtt. okkar liggja fyrir á þskj. 283. Þar eru sex brtt. 1. brtt. er umorðun á 2.–3. málsl. 1. málsgr. 1. gr., en efni greinarinnar er eiginlega óhaggað fyrir því. 2. og 3. málsl. eru á þá leið, að ríkisstj. megi heimila verðlagsnefnd að setja reglur um verðlag umfram það, sem segir í 1. málsl. gr., og taki heimild þessi einnig til taxta á viðgerðum, smíði, saumaskap o. s. frv., ef slíkir taxtar komi fram í sambandi við álagningu á efnivörur og vinnulaun. En réttara þótti að orða þetta svo, að ríkisstj. setti reglurnar, að fengnum till. verðlagsnefndar.

Þá er lagt til að fella burt 8.–9. gr. og 2. málsgr. 11. gr. – 8. gr. er þýðing úr norsku lögunum um þetta efni, en virðist óþörf hér. 9. gr. þykir ekki heldur þörf á að láta standa, og 2. málsgr. 11. gr. virðist felast í 1. málsgr. hennar. Svo er breytt um dagatal, að í stað 8 daga, sem verðhækkun verði að bíða, frá því að verðlagsnefnd er tilkynnt um hana, komi 4 dagar, og loks aðeins sú leiðrétting í 15. gr., að fara skuli með brot þau eftir ákvæðum almennra hegningarlaga, ef rangar skýrslur eru gefnar.