01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

74. mál, verðlag

Thor Thors:

Eins og hv. frsm. tók fram við 1. umr., að ég hygg, er mál þetta komið til allshn. frá hendi hæstv. viðskmrh. Hann lagði talsvert kapp á að fá n. til að flytja frv. fyrir hans hönd, enda þótt n., eða a. m. k. nokkrum hluta hennar, þætti það ekki nógu vel undirbúið og langt frá því, að t. d. orðalag væri viðunandi. Ég hefði talið eðlilegast, að hæstv. ráðh. hefði borið frv. undir ríkisstj. í heild, áður en hann lagði fyrir n. að flytja það, en hann mun ekki hafa gert það. Nokkur ákvæði frv. eru harkaleg og óþörf og sérstaklega til þess fallin að vekja tortryggni og andúð. Þetta hefði mátt laga, ef frv. hefði verið athugað af ríkisstj. í heild. Ákvæði þau, sem ná til taxta iðnaðarmanna, hafa þegar vakið skörp mótmæli. Þar með telja iðnaðarmenn, að Alþingi ætli nú að leyfa verðlagsnefnd að ákveða kaupgjald þeirra, en það hefir það ekki gert með gengisskráningarlögunum, og þykir iðnaðarmönnum sér sýndur með þessu hinn mesti ójöfnuður, samanborið við ýmsar aðrar stéttir. Um slíkt má vitanlega deila nokkuð, hver stéttin verði harðast úti. Hagnaður kaupsýslumanna er líka ákveðinn með lögunum um verðlag, er ákveða hámarksálagningu. Ég hygg því fjarri fara, að iðnaðarmannastéttin sé lögð í einelti, þótt þetta verði samþ. Og fyrir mitt leyti hefi ég getað fallizt á, að ríkisstj. sé heimilað að ákveða um taxta iðnaðarmanna í sambandi við álagningu á efnivörur og vinnulaun. Breytingar n. miðast annars við það að draga úr því, sem harkalegast er í frv. Við töldum 8. gr. óþarflega stranga og óþarfa og 9. gr. í enn ríkara mæli. Leggjum við því til, að þær falli burt. Við teljum, að ríkisstj. hafi eftir sem áður nægilega heimild til allra ráðstafana, sem þörf er á. Hæstv. viðskmrh. mætti á fundi n. og lýsti yfir því, að þegar verðlag verði sett, skuli einnig nokkurt tillit verða tekið til þess, ef umsetning einstakra vörutegunda rýrnar verulega vegna breytts verzlunarástands, og afkoma einstakra kaupsýslumanna á þann hátt ekki gerð mun örðugri en fyrr.

Þetta mál er í eðli sínu aðeins einn þáttur verzlunarmálanna, sem talsverður ágreiningur hefir verið um. Ég teldi eðlilegt, að hv. Ed. tæki það til rækilegrar meðferðar, og þá sérstaklega afstöðu þess til annara mála, sem fyrir liggja á verzlunarsviðinu.